Heimahjúkrun á höfuðborgarsvæðinu

Þriðjudaginn 02. mars 2004, kl. 13:54:29 (4735)

2004-03-02 13:54:29# 130. lþ. 74.94 fundur 374#B heimahjúkrun á höfuðborgarsvæðinu# (umræður utan dagskrár), heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 130. lþ.

[13:54]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Hv. 10. þm. Norðaust. beinir til mín þremur spurningum vegna þeirrar stöðu heimahjúkrunar í Reykjavík sem upp er komin eftir að á fjórða tug starfsmanna hætti störfum á þessum vettvangi.

Í fyrsta lagi er spurt hvort gerð hafi verið krafa af hálfu ráðuneytisins um sparnað í heimahjúkrun í Reykjavík. Svarið við því er nei.

Hv. þm. spyr um fjárhagslegan ávinning af því fyrir heilsugæsluna að breyta því akstursgreiðslukerfi með einkabílum starfsmanna sem viðgengist hefur.

Það er í raun ekki verið að breyta greiðslufyrirkomulaginu fyrir akstur til að ná fram fjárhagslegum sparnaði í heild. Það sem vakir fyrir stjórnendum heilsugæslunnar er að byggja upp öflugra kerfi heimahjúkrunar til lengri tíma litið. Heilsugæslan er að reyna að bæta þjónustuna við skjólstæðingana svo sem margsinnis hefur komið fram hjá forsvarsmönnum hennar.

Afar erfitt er, virðulegi forseti, að bera saman núverandi kerfi og það sem tekur við vegna þess að þar er borin saman áætlun eða spá annars vegar og raunveruleikinn hins vegar. Fyrir starfsmann sem fer í tíu vitjanir á dag nema akstursgreiðslurnar hins vegar um 100 þús. kr. á mánuði brúttó. Á móti kemur svo útlagður kostnaður starfsmannsins við rekstur á bíl.

Tilboð heilsugæslunnar um akstursgreiðslur fyrir not á eigin bíl felur í sér um 50 þús. kr. greiðslu á mánuði. Velji starfsmaður að nota bíl frá heilsugæslunni ber hann engan kostnað af rekstri bílsins en kostnaður heilsugæslunnar er þá 45--50 þús. kr. á mánuði.

Þrisvar hefur heilsugæslan gert tilraun til að breyta akstursgreiðslufyrirkomulaginu af þeirri einföldu ástæðu að forsvarsmenn hennar telja að þetta kerfi hamli frekari framþróun á því mikilvæga sviði sem heimahjúkrun er. Þeir starfsmenn sem sjá sér hag í kerfinu hafa ávallt sett sig á móti breytingum á því. Rétt er að taka fram að það eru alls ekki allir starfsmenn heimahjúkrunar sem njóta þessa gamla akstursgreiðslukerfis sem vissulega er barn síns tíma og átti að vera búið að endurskoða fyrir allmörgum árum.

Því er haldið fram að heilsugæslan komi fram af mikilli óbilgirni í þessu máli. Í því sambandi er rétt að fram komi að heilsugæslan hefur teygt sig langt til að koma til móts við starfsmennina. Í fyrsta lagi hefur verið boðið upp á bíl og tveggja launaflokka hækkun til allra til að koma til móts við þá sem bera skarðan hlut frá borði. Þessi tveggja launaflokka hækkun virðist mér nokkuð gott boð miðað við þá launahækkun sem rætt er um í samningaviðræðum sem nú standa sem hæst á almennum markaði.

Í öðru lagi er starfsmönnum áfram boðið að nota eigin bíl og fá tveggja launaflokka hækkun, færa akstursdagbók og fá greitt í samræmi við ekna kílómetra auk þess að fá greidda 1.300 km á ári fyrir akstur, sé starfsmaðurinn í fullu starfi. Það eru því öfugmæli að kalla þessi tilboð óbilgirni af hálfu heilsugæslunnar. Tilboð sem felur í sér það eitt að fá svigrúm til að skipuleggja þjónustuna við skjólstæðingana þannig að hún batni enn frá því sem nú er.

Það er líka rétt að draga fram að engin skrifleg tilboð eða gagntilboð hafa komið fram af hálfu stéttarfélaganna í þessu máli. Í þeim viðræðum sem fram fóru, áður en starfsmennirnir hættu störfum, hafa aðeins komið fram munnlegar kröfur um sólarlagsákvæði í fimm ár auk kröfu um þriggja eða fjögurra launaflokka hækkun.

Virðulegi forseti. Deilan snýst um að velja aksturskerfi fremur en taka tilboði um beinar launahækkanir sem næðu til allra starfsmanna. Menn mega ekki gleyma því að fjárhagslegur ávinningur heilsugæslunnar af þessari kerfisbreytingu er ekki fyrir hendi. Menn mega ekki gleyma því að akstursgreiðslukerfi af því tagi sem er í Reykjavík er verulega frábrugðið því sem tíðkast annars staðar. Menn verða að svara því af hverju þessir starfsmenn ríkisins skyldu ekki færa akstursdagbækur eins og aðrir þurfa að gera.

Það er rétt að taka fram að akstursgreiðslusamningunum var sagt upp með fullkomlega löglegum hætti og með lögbundnum fyrirvara. Það voru starfsmennirnir sjálfir sem tóku ákvörðun um að segja upp og hætta. Það er eðlilegra að greiða fyrir því sem næst raunverulega ekna kílómetra. Það er eðlilegra að bæta hugsanlegt tap starfsmannanna með launahækkun, eins og boðið hefur verið.

Ég skora á þá starfsmenn sem hættu störfum að snúa aftur og setjast niður með forsvarsmönnum heilsugæslunnar og taka upp samninga um nýtt fyrirkomulag þannig að við getum byggt upp þá mikilvægu þjónustu sem heimahjúkrunin er til langrar framtíðar. Það er alveg rétt sem fram hefur komið, að á því er mikil þörf. Þetta er mikilvæg og ómissandi þjónusta í heilbrigðiskerfinu.