Heimahjúkrun á höfuðborgarsvæðinu

Þriðjudaginn 02. mars 2004, kl. 14:02:02 (4737)

2004-03-02 14:02:02# 130. lþ. 74.94 fundur 374#B heimahjúkrun á höfuðborgarsvæðinu# (umræður utan dagskrár), ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 130. lþ.

[14:02]

Ásta Möller:

Virðulegi forseti. Deilan sem hér er til umræðu á sér nokkra forsögu. Við flutning heilsugæslunnar frá sveitarfélögum til ríkisins um áramótin 1990--1991 kom í ljós að akstursgreiðslur í heimahjúkrun og ungbarnaeftirliti á vegum sveitarfélaga voru nokkru hærri en hjá ríkinu. Það varð að samkomulagi milli viðkomandi stéttarfélaga og fjmrn. að starfsmönnum yrði bættur þessi munur þannig að starfsmaðurinn ,,verði að fullu eins settur og hann var áður`` eins og segir í yfirlýsingu þar um. Þannig varð til sú viðmiðun að greiddir voru 8 km vegna aksturs í hverja heimavitjun.

Þess má geta að þar til nýlega þurfti starfsmaður að leggja með sér bíl í heimavitjun í heilsugæslu. Hann hafði ekki þar val um. Þessum greiðslum var sagt upp fyrir þrem mánuðum og um það snýst deilan.

Frá upphafi hefur verið viðurkennt að greiðslurnar eru launauppbót enda hafa starfsmönnum nú verið boðnar launaflokkahækkanir í stað akstursgreiðslna. Þetta fyrirkomulag hefur einnig verið notað sem afkastahvetjandi kerfi án þess að það komi niður á gæðum þjónustunnar. Uppsagnir akstursgreiðslna eru ekki gerðar í sparnaðarskyni eins og kom fram hjá hæstv. heilbrrh. Önnur sjónarmið liggja þar að baki.

Lítið virðist bera í milli fulltrúa stéttarfélaga og yfirstjórnar heilsugæslunnar í Reykjavík um lausn málsins, svo lítið að það er ekki réttlætanlegt að halda sjúklingum í heimahúsum í óvissu. Heimahjúkrun er einn mikilvægasti þáttur í grunnþjónustu samfélagsins. Hún skiptir sköpum fyrir hundruð manna og gerir þeim kleift að búa heima þrátt fyrir skerta getu til sjálfsbjargar. Margur þyrfti að öðrum kosti að leggjast inn á stofnun með miklu meiri tilkostnaði.

Ég hvet aðila málsins til þess að binda enda á þetta ófremdarástand og ljúka samningum strax. Aðilar þurfa að sýna lipurð og sveigjanleika til að losa gamalt fólk, fatlaða og sjúklinga í heimahúsum undan óvissu. Margir þeirra finna fyrir kvíða og óöryggi og fjölskyldur þeirra eru í uppnámi vegna þessarar deilu. Deilunni verður að ljúka og það strax.