Heimahjúkrun á höfuðborgarsvæðinu

Þriðjudaginn 02. mars 2004, kl. 14:24:15 (4748)

2004-03-02 14:24:15# 130. lþ. 74.94 fundur 374#B heimahjúkrun á höfuðborgarsvæðinu# (umræður utan dagskrár), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 130. lþ.

[14:24]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Ég vísa því algjörlega á bug að það andi köldu milli mín og þeirra hjúkrunarfræðinga sem hafa sagt upp störfum. Ég hef í þeim orðum sem ég hef haft um málið hvatt menn til að ná samkomulagi, hvatt menn til að setjast niður, fara yfir málið upp á nýtt og leita leiða til að leysa það. Það er nauðsynlegt vegna þess að hér er um bráðnauðsynlega þjónustu að ræða.

Varðandi þá sem hafa lagst í söguskýringar á málinu, samstarfsmenn mínir í ríkisstjórn, vil ég minna á að til er nokkurra ára gamalt bréf frá fjmrn. þar sem þess er krafist að kerfið sé lagt af. Þess vegna er verið að taka þetta upp. Menn skulu bara kannast við það hér að þess vegna er verið að tala um að leggja þetta kerfi af. Þess vegna er verið að bjóða launahækkanir í staðinn fyrir þetta kerfi, og deilan snýst um það. (Gripið fram í: ... semja um málið.) Það er einmitt það sem ég sagði í fyrri orðum mínum, að það ber að leita leiða til að semja um málið og það er ekki verið að einkavæða þessa þjónustu. Það var gerð tilraun til að semja við fyrirtæki í Kópavogi til að koma að og hjálpa til meðan þetta ástand varir (Gripið fram í: ... brjóta niður ...) og það er mjög slæmt, ef rétt er að verið sé að reyna að koma í veg fyrir að þessi þjónusta sé veitt.

Ég vísa öllum ásökunum á bug um að það andi köldu frá mér. Ég endurtek að þetta mál þarf að leysa.