Yrkisréttur

Þriðjudaginn 02. mars 2004, kl. 14:46:19 (4751)

2004-03-02 14:46:19# 130. lþ. 74.5 fundur 613. mál: #A yrkisréttur# (EES-reglur, plöntuyrki o.fl.) frv., landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 130. lþ.

[14:46]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég útskýrði nokkuð greinilega og í þokkalegu máli hvers vegna málið er flutt, í stuttri en ítarlegri ræðu. Ég get tekið undir með hv. þm. að margt er göldrótt í textanum og flókið að virðist við fyrstu sýn, en ég held að öllum sé ljóst sem á mál mitt hlýddu að þetta snýr að samningi sem við höfum gert, EES-samningnum, og umsókn sem send hefur verið þannig að við viljum gerast aðilar að samningi UPOV. Ég vona að ræða mín hafi skýrt þetta nokkuð.

Hvað flókin orð varðar þá eru einkaleyfi alltaf flókin, hafa verið það og eru kannski enn þá flóknari annars staðar í Evrópu en hér. Hv. þm. á sæti í landbn. og sérfræðingar mínir í ráðuneytinu, sem unnu málið og gjörþekkja það, munu koma til fundar við nefndina og fara yfir þingmálið þar. Þó að ég þekki hluta málsins ætla ég því ekki að fara út í flækjur hér að útskýra andlag yrkisréttar. Ég held að þetta sé, eins og hv. þm. veit, mikilvægt gagnvart þeim samningi sem við gerðumst aðilar að og að Íslendingar haldi frumkvæði sínu og réttindum sínum og einkaleyfum í sinni náttúru. Að því snýr málið.

Það kann vel að vera að landbn. lagi orðalagið og textann og eitthvað hljóði það á eftir á skagfirska vísu. Ekki ætla ég að útiloka að málið megi bæta bæði að málfari og gera það skýrara. Ég viðurkenni að margt í texta frv. er mér sem venjulegum manni flókið. Frumvarpið er samið af sérfræðingum á þessu sviði og lagt fram sem slíkt samkvæmt alþjóðasamningi, þannig ber ég það fram til þingsins og fel síðan hv. landbn. að fullvinna málið og kalla til þá aðila sem þar ber að koma að, bæði til að fara yfir þýðingu málsins og texta þess og gera það sem best úr garði svo að það geti orðið að lögum.