Yrkisréttur

Þriðjudaginn 02. mars 2004, kl. 14:49:29 (4752)

2004-03-02 14:49:29# 130. lþ. 74.5 fundur 613. mál: #A yrkisréttur# (EES-reglur, plöntuyrki o.fl.) frv., AKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 130. lþ.

[14:49]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að ég varð fyrir vonbrigðum með ræðu hæstv. ráðherra því að ég hefði talið að honum væri sómi að því að geta skýrt og sýnt það í ræðustól Alþingis að hann skilji alveg fullkomlega frv. sem hann er að leggja fram. Mér sýnist því miður ekkert benda til þess.

Ég skil og veit af hverju frv. er lagt fram. Það er eitt af því sem er alveg skýrt í textanum og skýringunum við frv. Hins vegar er ekki aðalatriðið hvers vegna það er lagt fram, heldur að efni þess sé skýrt og að það sé viðeigandi fyrir íslenskar aðstæður. Ég var m.a. að reyna að benda á það í ræðu minni áðan að það er það ekki að mínum dómi.

Auðvitað koma sérfræðingar til okkar frá ráðuneytinu til að fjalla um þessi mál en ég verð að segja það aftur, frú forseti, að mér hefði þótt ánægjulegra að fá einhverjar skýringar á efni frv. eða við þeim spurningum sem ég lagði fyrir hæstv. ráðherra.