Yrkisréttur

Þriðjudaginn 02. mars 2004, kl. 14:50:47 (4753)

2004-03-02 14:50:47# 130. lþ. 74.5 fundur 613. mál: #A yrkisréttur# (EES-reglur, plöntuyrki o.fl.) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 130. lþ.

[14:50]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar ég flutti ræðu mína áðan var töluvert skvaldur í salnum og menn voru að ganga hér út. Ég býst við að hv. þm. hafi ekki lagt mikið á sig til að hlusta á ræðuna, hún var nokkuð afdráttarlaus og skýr og ég held á sæmilegu mannamáli.

Ég get farið yfir ræðuna aftur og flutt hana á nýjan leik fyrir hv. þm. eða afhent henni hana á eftir. Málið er mjög augljóst. Það er út af samningi sem við höfum gert á alþjóðavísu og snýr að gildissviði laga og hugtakið ,,yrki`` er skilgreint, það þarf að skilgreina það í þinginu. Það gildir um allar ættkvíslir og tegundir plantna. Ég hygg að helstu efnisákvæði frv. sem ég rakti í lokaorðum mínum hafi bara verið mjög skýr.

Ég fer ekki að láta toga út úr mér tunguna og útskýra einhver flókin lagaorð í textanum sem þarf kannski að sumu leyti, eins og hv. þm. sagði, að fara yfir og velta þeim fyrir sér varðandi íslenskar aðstæður o.s.frv. Ég treysti hv. landbn. fullkomlega til þess. Mínir menn, sem þekkja frv. vel, munu koma, eins og ég sagði, til fundar við nefndina og fara yfir það þannig að ég held að þingið þurfi ekki að taka meiri tíma í þetta mál á þessu stigi.