Yrkisréttur

Þriðjudaginn 02. mars 2004, kl. 14:53:29 (4756)

2004-03-02 14:53:29# 130. lþ. 74.5 fundur 613. mál: #A yrkisréttur# (EES-reglur, plöntuyrki o.fl.) frv., MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 130. lþ.

[14:53]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Málið snýst ekki um hvort eingöngu 63 þingmenn skilji þegar búið er að samþykkja frv. og það er gert að lögum. Það snýst um að þeir sem eiga að vinna eftir lögunum og að allur almenningur í landinu eigi greiðan aðgang að því að skilja það sem við samþykkjum.

Ég vil fyrir það fyrsta ítreka, af því að ég las frv., spurningu hv. þm. Önnu Kristínar Gunnarsdóttur, þ.e. hvort ýmsar tegundir blóma og grænmetis sem verið er að framleiða í dag falla undir þetta sérkennilega frv. Þar á meðal, eins og hv. þm. nefndi sérstaklega, rósaræktina.

Mér sýnist, eins og 1. gr. segir, að:

,,Plöntuhópar samanstanda af heilum plöntum eða plöntuhlutum ef með hlutunum má rækta heilar plöntur, hvort tveggja í lögum þessum nefnt stofnþættir yrkis.``

Það segir mér að fjölgun rósa á stilkum er stofnþáttur yrkis.

Mér sýnist á athugasemdum við lagafrumvarpið að við séum ekki orðin aðilar að samningnum sem hæstv. ráðherra sagði að við værum orðin, heldur hafi verið sótt um 2. des. 1996, það sé því enn þá í skoðun.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Eru einhverjar plöntur eða einhverjir plöntuhópar sem nú þegar eru á válista gagnvart ákvæðum frv. þar sem framleiðslan er í höndum eins aðila og hefur í raun og veru ekki verið fjölfölduð annars staðar og einkaréttur til staðar en framleiðsla mjög lítil? Það á kannski við blómabændur og aðra. Eru einhverjar plöntur á válista samkvæmt frv.?