Vextir og þjónustugjöld bankastofnana

Þriðjudaginn 02. mars 2004, kl. 15:52:50 (4768)

2004-03-02 15:52:50# 130. lþ. 74.8 fundur 323. mál: #A vextir og þjónustugjöld bankastofnana# þál., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 130. lþ.

[15:52]

Hjálmar Árnason:

Frú forseti. Hér er hreyft ansi stóru máli. Ég hygg að um það sé ekki mikill ágreiningur að undirstaða allra stjórnmála sé efnahagsmál. Það er kannski hin alltumvefjandi breyta. En undir þeirri breytu eru síðan aðrar minni breytur sem falla allar undir þetta yfirgripsmikla hugtak efnahagsmál sem menn geta svo nálgast með ólíkum hætti. Ein af þeim breytum er auðvitað stöðugleiki, stöðugleiki í atvinnulífi, efnahagslífi og þar fram eftir götunum. Stöðugleiki er ákveðið skilyrði til að atvinnulíf geti blómstrað, og heimilin.

Önnur breyta er síðan traust atvinnustig. Um það er væntanlega ekki mikill ágreiningur að atvinnuleysi er böl og menn vilja útrýma því.

Ein breytan enn er síðan ríkisútgjöld, hvar eigi að draga mörk ríkisútgjalda, og leiðir þá hugann einmitt að öðrum þætti sem er hlutfallið á milli samneyslu og einkaneyslu. Verðmætasköpun er undirstaða alls og síðan kemur í framhaldi af því hvernig á að skipta kökunni. Þetta eru þær helstu breytur sem pólitík fjallar um. Síðan geta menn haft, og hafa, ólíkar skoðanir á einstökum þáttum, hvaða leiðir menn vilja fara að einstökum markmiðum, en allt fellur þetta undir efnahagsmál.

Ein breytan í þessu öllu er síðan ónefnd, bankar, starfsemi þeirra og þau kjör sem bankar bjóða atvinnulífi og einstaklingum. Eins og fram hefur komið, m.a. hjá hv. frummælanda, eru heimili skuldsett. Það er ákveðinn lífsmáti sem Íslendingar hafa tileinkað sér í meira mæli en t.d. Þjóðverjar sem nurla fyrir hlutum áður en þeir kaupa, en íslensk heimili eru jú skuldsett. Sama má segja um fyrirtæki. Þess vegna skiptir umhverfi bankanna og þau kjör sem bankar eru að bjóða afskaplega miklu máli, ekki bara fyrir atvinnulífið okkar, heldur ekki síður fyrir heimilin í landinu. Eins og fram kemur í ágætri greinargerð með þáltill. þýðir 3--4% lækkun á vöxtum hér á landi frá 175 þús. og upp í 237 þús. kr. tekjuaukningu fyrir heimilin í landinu sem eru svo skuldsett. Ráðstöfunartekjur heimila gætu aukist í kringum 200 þús. kr. við það eitt að vaxtastig lækkaði. Það eru sambærilegar upphæðir og verið er að eyða löngum tíma í að semja um, kjör í viðræðum atvinnurekenda og launþegahreyfingar þar sem um síðir, jafnvel eftir verkföll, er samið um upphæðir sem eru lægri en þessar. Ég dreg þetta fram, frú forseti, til að leggja áherslu á það, sem er nú útgangspunkturinn í þáltill., að bankar og þau kjör sem þeir bjóða skipta höfuðmáli fyrir efnahagslíf okkar, fyrir heimilin og atvinnulífið.

Þá kemur grundvallarspurningin: Eru kjör þeirra lakari hérlendis en í samkeppnislöndum okkar? Ekki þarf annað en að fylgjast með umræðum, skrifum í fjölmiðlum og umræðuþáttum síðustu mánuði og missiri þar sem upphrópanir stangast allverulega á, þar sem bankarnir telja sig vera samkeppnisfæra, vera á svipuðum kjörum, meðan aðrir fullyrða hið gagnstæða.

Þess vegna er afskaplega mikilvægt að réttar upplýsingar liggi fyrir, ef hægt er að tala um réttar upplýsingar, fengnar á hlutlægan hátt þannig að hægt sé að leggja það fyrir hið háa Alþingi hverjar staðreyndir málsins eru. Á grundvelli þeirra staðreynda getum við síðan hafið hina pólitísku umræðu: Eru kjör banka hér á landi lakari en gengur og gerist í nágrannalöndunum? Ef svo er, til hvaða ráðstafana ætlum við að grípa? En áður en við förum í einhverja slíka umræðu þurfum við að hafa hinar réttu upplýsingar, hinar hlutlausu upplýsingar, fyrir framan okkur. Þess vegna get ég ekki stillt mig um að koma hér upp og lýsa yfir stuðningi við þáltill. því að ég les hana þannig að verið sé að mælast til þess að ná í þessar hlutlægu upplýsingar þannig að við getum í kjölfarið á því hafið pólitíska umræðu sem byggir á staðreyndum en ekki hrópum og köllum eins og því miður hefur of oft verið í þessu mikla hitamáli.

Ég er ekki alveg sammála því sem hv. frsm. nefndi hér, að hagur almennings hafi ekki batnað. Allar hagtölur segja að kaupmáttur á Íslandi hafi batnað verulega, m.a. vegna þess að hjól atvinnulífsins hafa snúist nokkuð þokkalega síðustu 10 árin eða svo. Það hefur hins vegar leitt til þess að hagur bankanna hefur vænkast allverulega og spurningin er hvort þeir hafi látið viðskiptavini sína njóta þess með sér. Það er það sem við munum væntanlega fá fram verði þessi þáltill. samþykkt og upplýsingarnar liggja fyrir.

Umgjörðin í kringum bankana hefur batnað líka. Við höfum mjög öflugt fjármálaeftirlit sem hefur sýnt og sannað að það stendur sig í stykkinu. Samkeppnisstofnun hefur aldeilis fengið aukin skotfæri eins og nýleg dæmi um starfsemi Samkeppnisstofnunar sýna.

Meðan þessara svara er leitað þurfum við að fá að vita hvaða áhrif fyrirkomulag með ábyrgðarmenn hafi á bankakerfi okkar eins og hér hefur verið gert að umtalsefni. Nú hefur verið talað um að stöðugleiki hafi aukist. Ábyrgðarmannakerfinu var komið á meðan við vorum í óðaverðbólgu og stöðugleikinn lítill. Nú höfum við til allrar hamingju þennan stöðugleika. Er grundvöllur kominn til þess að láta ábyrgðarmannakerfið falla niður sem sumir bankar eru vissulega byrjaðir að þreifa sig inn á? Við þurfum að geta svarað því hvaða áhrif það hefur og fá skýr svör frá bönkunum. Við þurfum að fá svör við því hvaða áhrif það hefur á kostnað bankanna hvað við erum fá og dreifð í stóru landi, þ.e. hin landfræðilega dreifing, og við þurfum að fá svör við því af hverju erlendir bankar koma ekki hingað inn. Hvers vegna sýna þeir því ekki áhuga í frjálsu flæði fólks og fjármagns þegar þeir gætu opnað hér útibú? Hvers vegna koma þeir ekki? Hvaða áhrif hefur verðtryggingin? Hvaða áhrif hefur útrás íslensku bankanna sem hlýtur að vera fagnaðarefni? Mun hún hafa jákvæð áhrif á starfskjörin og þau kjör sem innlendum aðilum eru boðin? Gengismálin, samkeppnin versus samráð og þar fram eftir götunum. Þetta eru allt stór álitamál og mjög mikilvægt er að hafa sannar upplýsingar, réttar hlutlægar upplýsingar, þegar við tökum hina pólitísku umræðu.

Þegar þessar upplýsingar liggja fyrir er kannski lag til að ná því markmiði sem við öll látum okkur dreyma um, að sjá hér minni vaxtamun og lægri þjónustugjöld, og í stjórnmálunum kann það að leiða til heitrar umræðu.

Ég fagna því að þessi þáltill. skuli fram komin og vonast til þess að fá að sjá þessar upplýsingar og hlakka til pólitískrar umræðu um þetta mikilvæga mál.