Vextir og þjónustugjöld bankastofnana

Þriðjudaginn 02. mars 2004, kl. 16:01:20 (4769)

2004-03-02 16:01:20# 130. lþ. 74.8 fundur 323. mál: #A vextir og þjónustugjöld bankastofnana# þál., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 130. lþ.

[16:01]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Það er ástæða til að lýsa yfir stuðningi við þessa tillögu. Benda má á umræðu í vetur um kjör bankanna, um þjónustugjöld og kannanir sem gerðar hafa verið að undanförnu og verið birtar. Auk þess hafa verið gefnar yfirlýsingar um að birtar verði á næstunni niðurstöður sem hafi aðra vigt en þær kannanir sem bankarnir létu gera fyrir stuttu. Þetta eru misvísandi skilaboð um hvaða þjónustugjöld er í raun boðið upp á í bönkunum. Auðvitað er mjög mikilvægt, að menn sjái nákvæmlega hvernig öll þessi mál liggja svo að umræðan byggist á raunverulegri vitneskju.

Við höfum lifað mikla breytingatíma. Ríkisbankarnir hafa verið seldir og þó að þeir hafi ekki verið allt fjármálakerfið í landinu þá voru þeir það stór hluti fjármálakerfisins að þeir höfðu veruleg áhrif á það hvernig aðrir hlutar kerfisins unnu. Ríkisbankarnir voru ekki reknir með það í huga að hafa hagnað af fjármálastarfseminni eins og bankakerfið er rekið núna. Aðhald ríkisbankanna að öðrum fjármálastofnunum er ekki lengur fyrir hendi. Ég tel mikilvægt að menn hafi það í huga vegna þess að í staðinn fyrir þetta aðhald átti að koma samkeppni á markaðnum. Á þá samkeppni hefur verulega skort fram að þessu. Að vísu hafa komið fram digrar yfirlýsingar KB-banka um það að nú skuli þetta breytast. Menn munu vonandi finna fyrir samkeppninni í framhaldinu og vonandi að menn standi þar við stóru orðin og sýni það að þeir séu tilbúnir í þessa samkeppni og séu tilbúnir að leggja eitthvað á sig til að hér verði svipað fjármálaumhverfi og er í löndunum í kring. Það kemur auðvitað í ljós á næstu missirum hvort eitthvað er að marka slíkar yfirlýsingar.

En umræðan um þjónustugjöldin segir okkur dálítið líka, að menn eru ekki alveg samkvæmir sjálfum sér. Að mínu viti eiga þjónustugjöld bankanna ekki að bera fullkomlega uppi kostnað af bankastarfsemi eins og gefið er í skyn að þau eigi að gera í þessari umræðu. Önnur starfsemi bankanna er auðvitað orðin til vegna þeirra krafta sem bankarnir fá með því að hafa undir höndum þá fjármuni sem almenningur og fyrirtæki leggja þar inn. Fjármálastarfsemin sem bankarnir stunda er auðvitað líka stunduð með peninga fólksins og fyrirtækjanna að bakhjarli. Þess vegna er sú umræða sem farið hefur fram í vetur að hluta til á villigötum. Því hefur nánast verið haldið fram að það þurfi að vera hægt að reka bankana á þjónustugjöldum.

Á sama tíma og bankarnir hafa ekki getað lánað út alla þá fjármuni til almennrar lánastarfsemi sem þeir hafa haft undir höndum hafa þeir valið þá leið að nota afl sitt í fjárfestingastarfsemi. Það eru röng skilaboð í því fólgin að nota slík tímabil til þess að gefa til kynna að ekki sé nógur arður af bankastarfseminni, að þjónustugjöld, aðrir slíkir póstar og vaxtamunur dugi ekki til að reka bankana þegar menn eru á kafi í að nota kraft bankanna í annað.

Ég vildi koma þessu á framfæri við þessa umræðu. Mér hefur fundist á það skorta að menn töluðu um þetta í þeirri umræðu sem fram hefur farið. Auðvitað þarf líka að ræða um siðferði í þessum rekstri.

Þá kem ég aftur að þessu sama, að banki og fjármálafyrirtæki stunda ekki bara lánastarfsemi. Þetta er ekki bara sparisjóður. Þetta er fjárfestingarstarfsemi. Þar fer fram kaupskapur með verðbréf og alla mögulega pappíra sem notaðir eru í viðskiptum í landinu. Þar er unnið að umbreytingu fyrirtækja. Þetta er það sem stundum hefur verið kallað brask. Allt þetta er í höndum fjármálafyrirtækja sem kalla sig banka.

Það er umhugsunarefni hvernig bankarnir geta verið allt í kringum, undir og yfir borðinu í öllum viðskiptum, bjóðandi þjónustu við fólkið. Mér finnst að dæmið sem kom upp fyrir tveimur árum eða tæplega það, hálfu öðru ári, þegar KB-banki, sem hét þá Kaupþing -- Búnaðarbanki, verðlaunaði einn aðalforstjóra sinn um 60--70 millj. kr. fyrir góðan árangur bankans á sama tíma og hann sendi viðskiptavinum bankans reikninga sem sögðu: Því miður við töpuðum á því að ávaxta fjármuni þína í bankanum. Á sama tíma og þeir tóku vitlausar ákvarðanir til að ávaxta fjármuni viðskiptavinanna voru frammámenn bankans verðlaunaðir fyrir að hafa náð þessum gífurlega hagnaði til handa þeim sem áttu hlutabréf í bankanum. Að mínu viti á slíkt siðferði ekki heima í fjármálastofnunum. Ef menn eiga skilið verðlaun fyrir að stjórna slíkri fjármálastofnun eiga þau verðlaun að byggjast á því að vel sé gert, ekki bara við hluthafa bankans heldur líka viðskiptavini bankans. Það á ekki að vega meira og ætti a.m.k. að vega jafnþungt að fólkið og fyrirtækin sem eiga að vera grundvöllur fyrir starfsemi bankans njóti þess að menn hafi gert vel. Það er verið að snúa hlutunum á hvolf þegar svona er staðið að og þá er siðferðið ekki í lagi.

Ég vildi koma þessu að í umræðunni. Ég vona sannarlega að niðurstaðan verði sú að þessi tillaga verði samþykkt. Menn fá þá kannski betri upplýsingar til að byggja á í þeirri umræðu sem hlýtur að vera fram undan. Á því er vissulega þörf vegna þess að í hinu nýja umhverfi fjármálastarfseminnar í landinu þurfa menn að gæta sín og sjá til að bættur hagur fyrirtækjanna verði til hagsbóta fyrir fólkið í landinu, en verði ekki notaður til fjárplógsstarfsemi af því tagi sem við höfum stundum séð.