Vextir og þjónustugjöld bankastofnana

Þriðjudaginn 02. mars 2004, kl. 16:26:36 (4775)

2004-03-02 16:26:36# 130. lþ. 74.8 fundur 323. mál: #A vextir og þjónustugjöld bankastofnana# þál., SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 130. lþ.

[16:26]

Sigurjón Þórðarson:

Frú forseti. Ég tel hér um gott mál að ræða, þ.e. að aflað verði nánari upplýsinga um tekjur bankanna af vaxtamun og þjónustugjöldum hér á landi. Ég tel mjög mikilvægt að bera það saman, að opinberir aðilar beri það saman við tekjur banka annars staðar á Norðurlöndunum og í Evrópu. Ég tel það einfaldlega allri umræðu um þennan málaflokk til framdráttar. Það er greinilegt að menn eru ekki sammála um hver raunkostnaðurinn er og þess vegna verður að fara ofan í þessa liði.

Frú forseti. Það sem ég tel athugavert og verði að skoða sérstaklega í tillögunni er hvaða áhrif upptaka evrunnar hefði á vaxtamun hér á landi. Ég hef alltaf staðið í þeirri meiningu að við gætum ekki tekið upp evruna nema að ganga í Evrópusambandið. Það væri fróðlegt að fá að heyra nánar um það hjá flutningsmönnum tillögunnar hvort ekki séu einhver vandkvæði á því að taka upp evruna, hvort við verðum þá ekki að ganga í Evrópusambandið eða að gera sérstakan samning við seðlabanka Evrópu um það mál --- ég veit t.d. að Danir hafa tengt sína krónu við evruna og þeir gerðu þá sérstakan samning eftir því sem ég veit best --- og hvort það gangi bara einhliða að taka upp evruna. Það væri fróðlegt að fá að heyra það hjá flutningsmönnum tillögunnar. Við höfum dæmi um að menn hafi tekið upp mynt einhliða eins og í Argentínu og það fór nú ekki vel þar. Athyglisvert væri að vita hvernig flutningsmenn sjá þetta fyrir sér, hvort eigi að skoða þetta í framhaldi af því að vera komin inn í Evópusambandið eða hvort menn geti fengið slíkan samning án þess að vera í Evrópusambandinu vegna þess að við erum þá aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu.

Engu að síður tel ég þarna um mjög gott mál að ræða og sérstaklega það að skoða náið vaxtamun bankanna og að í þeirri úttekt verði sérstaklega farið yfir annars vegar vexti sem stærri fyrirtæki njóta, en þau hafa aðgang að erlendu lánsfé og lægri vöxtum í útlöndum þannig að bankastofnanir hér á landi eru í ákveðinni samkeppni beint við útlönd. Það hefur komið fram að vaxtamunur hefur lækkað og þess vegna tel ég nauðsynlegt að fara yfir það hvort einstaklingar og minni fyrirtæki sem hafa ekki jafngreiðan aðgang að erlendu fé, njóti minni vaxtamunar.

Varðandi þjónustugjöldin tel ég eins og áður segir mjög nauðsynlegt að fara náið yfir þau vegna þess að bankana og Neytendasamtökin greinir á um hvort þjónustugjöld séu hærri hér en erlendis. Neytendasamtökin telja þau vera mun hærri en bankarnir svipuð eða jafnvel lægri. Bankarnir héldu því fram að stórir liðir í þjónustugjöldum bankanna væru vegna sérfræðiaðstoðar og ekki einungis vegna hækkunar á frumskógi þjónustugjalda bankanna. Ég tel að gera þurfi þennan samanburð einfaldari svo neytendur geti í rauninni séð hver þjónustugjöldin eru og borið þau saman á milli banka. Menn beri saman sambærilega hluti þannig að raunveruleg samkeppni komist á og menn geti þá valið þann banka sem býður raunverulega lægri þjónustugjöld og geti þannig auðveldað neytendum að velja þann banka sem býður betri kjör.

Að lokum vil ég ítreka að ég tel þetta mjög góða tillögu og nauðsynlegt að opinberir aðilar fari yfir þennan ágreining sem virðist vera og að menn geti ekki borið saman á milli bankanna, menn greinir á um það hver raunveruleg þjónustugjöld eru.