Vextir og þjónustugjöld bankastofnana

Þriðjudaginn 02. mars 2004, kl. 16:31:55 (4776)

2004-03-02 16:31:55# 130. lþ. 74.8 fundur 323. mál: #A vextir og þjónustugjöld bankastofnana# þál., Flm. BH
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 130. lþ.

[16:31]

Flm. (Bryndís Hlöðversdóttir):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg fleiri orð um þá tillögu sem hér liggur fyrir en vil kannski fyrst og síðast þakka þeim sem hafa tekið þátt í umræðunni og einnig góðar undirtektir sem tillagan hefur fengið. Flestir þeir sem hér hafa talað hafa lýst yfir stuðningi við það að sá samanburður sem hér er lagt til að verði gerður verði unninn. Og það er það sem skiptir mestu máli í mínum huga. Satt best að segja hafði ég það mjög í huga við samningu þessarar tillögu að setja hana þannig fram að möguleiki væri á því að ná um það samstöðu að gera þennan samanburð. Ég tel að það sé gríðarlega mikilvægt.

Ef maður horfir á efni tillögunnar, hæstv. forseti, held ég að við getum öll verið sammála um að þennan samanburð þurfi að gera, það sé orðið mjög brýnt. Samanburðinn vantar og það er lagt til að hann verði gerður af hlutlausum aðila.

Hér kom athugasemd frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um að hún efaðist um að ríkisstjórnin væri sá hlutlausi aðili sem við þyrftum til þess að gera þennan samanburð. Ég held hins vegar að í raun og veru sé ekki hægt að sjá fyrir sér neitt eðlilegra ferli í þessum efnum en það sem hér er lagt til, að Alþingi feli ríkisstjórninni að gera samanburðinn, rannsaka og grafast fyrir um ástæður munarins og leggja það síðan fyrir Alþingi. Þá getum við tekið hina pólitísku umræðu um hvað beri að gera.

Hér gerðu hv. þm. Jón Bjarnason og Sigurjón Þórðarson athugasemdir um evruna og lögðu spurningar fyrir mig um það hvort ég sæi fyrir mér, eða við sem þessa tillögu leggjum fram, að hægt yrði að taka upp evru án þess að ganga inn í Evrópusambandið. Ég held að það sé ekki raunhæfur kostur. Og ég held að það yrði heldur ekki til heilla í sjálfu sér fyrir íslenskt efnahagslíf að taka upp evruna án þess að ganga inn í Evrópusambandið og fylgja þá með inn í það aðhald og það kerfi sem á henni byggir. Hins vegar, eins og hv. þm. Jóhann Ársælsson benti á, er íslenskt fjármálalíf að miklu leyti að gera þetta núna. Þetta er sá gjaldmiðill sem fólk velur sér í stórum stíl og þess vegna er mjög eðlilegt að þetta sé tekið inn í samanburðinn. Það má gera með ýmsum hætti, m.a. með því að kanna hvað hafi gerst hjá öðrum þjóðum sem hafa tekið upp evruna. Það má líka kanna hvaða áhrif það hefur haft hér á landi að verið sé að taka hana upp án þess að gengið sé inn í Evrópusambandið og farið inn í það kerfi sem henni fylgir.

Það er engin afstaða í þessari tillögu tekin til aðildar að Evrópusambandinu og þess vegna held ég að a.m.k. allir þeir hv. þm. sem hér hafa talað ættu að geta sofið rólega yfir þeim þætti tillögunnar. Við teljum hins vegar mikilvægt að taka þennan lið inn í sem einn af þeim stóru þáttum sem á að skoða.

Ég nefni líka í tillögugreininni að skoða beri hvaða áhrif það hafi að hlutfallslega ódýr lán húsbréfakerfisins standa fyrir utan lánakerfi bankanna. Ég er ekki að lýsa neinni afstöðu í tillögugreininni til þess hvort ég telji að taka eigi þetta inn í bankastofnanirnar. Ég er ekki tilbúin að taka afstöðu til þess vegna þess að ég tel að ýmsar upplýsingar vanti um það mál svo hægt sé að taka til þess einhverja afstöðu sem væri byggð á skynsamlegum grunni. Og svona mætti áfram telja.

Það er líka fjallað um verðtrygginguna. Í greinargerð er talað sérstaklega um ábyrgðarmannakerfið sem er liður í íslenska bankakerfinu og sem veitir því mikla sérstöðu miðað við bankakerfi annarra landa. Allt þetta þarf að skoða.

Ég held að ég verði bara að segja það við hv. þm. Jón Bjarnason sem segir að tillagan hefði verið betri ef ekki hefði verið talað um evruna í henni --- sennilega hefði hún verið betri ef ekkert E-orð hefði verið í tillögunni að hans mati --- að ég held að við getum verið sammála um að skoða málið. Ég vil benda hv. þingmanni á að ekki er tekin nein afstaða til Evrópusambandsaðildar í þessari tillögugrein.

Ég geri mér vonir um það, hæstv. forseti, að tillagan verði samþykkt á hinu háa Alþingi. Ég ræð það m.a. af umræðunum. Hér hafa talað fulltrúar allra flokka sem sitja á þingi, nema reyndar Sjálfstfl. Miðað við þá umræðu sem átt hefur sér stað í þjóðfélaginu upp á síðkastið um það sem er að gerast í efnahagslífinu held ég að forustumenn stjórnarflokkanna geti verið sammála um það sem hæstv. utanrrh. nefnir svo að hin nýja íslenska stefna sé ekki dýrkun gróðans. Miðað við umræðuna hér held ég að menn geti verið sammála um tillöguna og þess vegna bind ég við það vonir, hæstv. forseti, að hún verði samþykkt og að menn geti fallist á að fara í þessa skoðun.

Auðvitað er ég líka nokkuð viss um að það eigi eftir að vera skiptar skoðanir um hvaða leið beri að fara og hvað beri að gera í framhaldinu. Samanburðinn vantar. Skoðunina þarf að framkvæma. Það hafa átt sér stað mjög mikil umskipti í íslensku efnahagslífi, íslensku fjármálalífi, á undanförnum árum og það er ekkert eðlilegra en að stjórnmálamenn skoði hvaða áhrif þau hafa haft og hvað sé að gerast hér á landi í samanburði við önnur lönd, sérstaklega í ljósi þess hversu margar misvísandi kannanir hafa verið gerðar um þennan þátt sem hafa gert íslenska neytendur enn ráðvilltari. Auk þess höfum við sem setjum rammann hér á hinu háa Alþingi legið undir ámæli fyrir það að vera að opna á frelsið án þess að setja því eðlilegan ramma. Ég held, hæstv. forseti, að við getum öll verið sammála um það hér á Alþingi að þennan ramma beri að setja og ekki seinna vænna en að við förum að afla gagna til þess að geta myndað okkur raunhæfa skoðun á því.

Að lokum legg ég til að þessari tillögu verði vísað til hv. efh.- og viðskn.