Skipulag sjóbjörgunarmála

Þriðjudaginn 02. mars 2004, kl. 16:46:05 (4778)

2004-03-02 16:46:05# 130. lþ. 74.9 fundur 335. mál: #A skipulag sjóbjörgunarmála# þál., GHall
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 130. lþ.

[16:46]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Þetta mál er um margt gott. Vissulega þurfum við ávallt að halda vöku okkar í sambandi við skipulag á sjóbjörgunarmálum, svo mörg slys sem orðið hafa.

Annað vildi ég geta hér um, það mun líklega hafa verið fyrir tveimur árum að ég sem formaður samgn. boðaði þá til samgn. alla þá aðila sem að sjóbjörgunarmálum komu, og koma. Það var af þeirri ástæðu að slys hafði orðið rétt fyrir utan Vestmannaeyjar og eitthvað misfórst eftirlit með því skipi af hálfu tilkynningarskyldunnar sem auðvitað alltaf getur komið upp. Síðan hefur mikið gerst og mikið breyst í málefnum sjóbjörgunarmála, og er svo komið að nánast er að komast á koppinn ein björgunarstöð eins og ég þykist vita að hv. flm. þessarar tillögu, Jóhann Ársælsson, viti um. Er auðvitað mjög vel að svo sé. Nú stefnir í að síðasti aðili sem að sjóbjörgunarmálum kemur, Landhelgisgæslan, muni fara undir þetta sama þak og þá má segja að öll mál sem lúta að björgun á lofti, láði og legi séu komin á sama stað. Er það auðvitað mjög til hins betra, og sjálfsagt, og hefði átt að gerast fyrir lifandis löngu þegar til þess er litið að þjóðin er ekki stór en býr hins vegar í hrjóstrugu og stóru landi. Víðátta hafsins er, svo sem segir í íslenskri lögsögu, 758.000 ferkílómetrar þannig að það er mikið hafsvæði sem t.d. Landhelgisgæslan þarf að hafa eftirlit með. Auk þess er Landhelgisgæslan aðili að alþjóðlegri björgunarstarfsemi sem nær náttúrlega langt út fyrir þessar raðir og þá bætist enn frekar við svæði sem Landhelgisgæslan á að sinna, þ.e. fyrir utan 200 mílna lögsöguna.

Þáltill. gengur út á að gera úttekt á skipulaginu. Í sjálfu sér er skipulagið að myndast núna með þessari samræmdu björgunarstöð sem verið er að setja upp í Öskjuhlíðinni. Hún er þegar farin að sýna gildi sitt og sanna. Ég tel að ekki sé úr vegi að þáltill. komi til nefndar til frekari skoðunar og þá til ítrekunar þeirra aðila sem sjá um sjóbjörgunarmál, til frekari áherslu. Ég tel að það sé bara af hinu góða þegar Alþingi sýnir slíku máli áhuga, ýtir á og er með ábendingar til þeirra aðila sem að sjóbjörgunarmálum standa. Þess vegna, virðulegi forseti, er ég stuðningsmaður þáltill. því allt það sem getur gott af sér leitt í öryggis- og björgunarmálum þjóðarinnar er bara af hinu góða.