Skipulag sjóbjörgunarmála

Þriðjudaginn 02. mars 2004, kl. 16:49:56 (4779)

2004-03-02 16:49:56# 130. lþ. 74.9 fundur 335. mál: #A skipulag sjóbjörgunarmála# þál., Flm. JÁ
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 130. lþ.

[16:49]

Flm. (Jóhann Ársælsson):

Hæstv. forseti. Örfá orð í viðbót. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni undirtektirnar við málið. Þessi björgunarstöð er orðin til og er að mótast til lokaskipulags. Kannski mætti skoða hana betur hvað varðar þessa tillögu en hún var auðvitað margþættari en bara að fara yfir það mál. Ég held hins vegar að það sé gott og nauðsynlegt fyrir einmitt Alþingi og sérstaklega þá nefnd Alþingis sem með þessi mál fer að kynna sér nákvæmlega hvernig málin standa núna eftir þessar miklu skipulagsbreytingar.

Síðan er hitt sem var hvatinn að því að ég fór að undirbúa þessa tillögu á sínum tíma, að ekkert hefur verið gert hvað varðar þessa hættulega staði sem ég nefndi í framsöguræðunni, þar sem sjóslys hafa orðið ítrekað í gegnum tíðina og við, því miður, vitum að munu verða í framtíðinni. Það verður áfram þörf á því að bjarga skipum og mönnum frá þessum svæðum. Þar hefur ekki, a.m.k. svo ég viti til, fram að þessu verið farið í framkvæmdir sem gætu auðveldað björgunarmönnum aðgang og þar með björgun þegar á þarf að halda. Þess vegna ákvað ég að flytja þessa tillögu í hið þriðja sinnið og reyna að þrýsta á að þar kæmi frumkvæði frá Alþingi. Fjármunir til þess þurfa að koma af fjárlögum ef á að verða af framkvæmdum sem hér er lagt til að verði farið í, þ.e. fyrir vegslóða og að koma upp aðstöðu á þessum stöðum. Það yrði þá tekið út nákvæmlega hverjir þeir ættu helst að vera og hvar menn ættu að setja forgang hvað varðaði slíka hættulega staði. Þá þurfa að koma fjármunir á fjárlögum.

Þess vegna, hæstv. forseti, flutti ég tillöguna í hið þriðja sinnið en tel reyndar að alþingismenn og Alþingi hafi mjög gott af því að fara yfir það nákvæmlega hvernig staðan er núna eftir breytingarnar sem hafa orðið.