Stjórnunar- og eignatengsl í viðskiptalífinu

Þriðjudaginn 02. mars 2004, kl. 16:53:18 (4780)

2004-03-02 16:53:18# 130. lþ. 74.10 fundur 336. mál: #A stjórnunar- og eignatengsl í viðskiptalífinu# þál., Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 130. lþ.

[16:53]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Frú forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um nýja skýrslu um stjórnunar- og eignatengsl í viðskiptalífinu.

Tillögugreinin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela viðskiptaráðherra að sjá um að endurnýjuð og uppfærð verði skýrsla um stjórnunar- og eignatengsl í íslensku atvinnulífi. Í skýrslunni skal gera grein fyrir helstu breytingum sem orðið hafa á stjórnunar- og eignatengslum frá því fyrri skýrslur, sem út komu árin 1994 og 2001, voru unnar. Leitast skal við að greina hvort gæti einkenna aukinnar hringa- eða blokkamyndunar og kortleggja helstu svið þar sem markaðseinokun eða vaxandi fákeppni ríkir. Í heild skal skýrslan gefa eins skýra mynd og kostur er af þróun íslensks viðskiptalífs og samkeppnisskilyrðum á öllum helstu sviðum atvinnulífs og viðskipta.

Viðbótarkostnaður sem Samkeppnisstofnun eða aðrir aðilar bera af gerð skýrslunnar greiðist úr ríkissjóði. Viðskiptaráðherra skal að lokinni gerð skýrslunnar leggja hana fyrir Alþingi.``

Þegar ný samkeppnislög voru sett á Alþingi á fyrri hluta árs 1993 mörkuðu þau tímamót með ýmsum hætti. Lögin leystu af hólmi eldri lög um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti sem á ýmsan hátt voru orðin úr takti við tímann. Ágæt samstaða tókst um afgreiðslu málsins á Alþingi enda lagði efh.- og viðskn., sem hafði málið lengi til umfjöllunar, mikla vinnu í það verk og frv. tók talsverðum breytingum í meðförum þingsins. Hluti af samkomulagi sem lá til grundvallar afgreiðslu málsins fólst í því að mæla fyrir um viðamikla úttekt á stjórnunar- og eignatengslum milli fyrirtækja á íslenskum markaði. Þessi ráðstöfun endurspeglaði skilning þáverandi þingnefndar sem tillöguna flutti á því að sökum smæðar og skammrar þroskasögu samkeppnismarkaðar á mörgum sviðum viðskipta hér væri ástæða til að vera vel á verði gagnvart einkennum fákeppni og hringamyndunar.

Í nefndinni var einnig ítarlega rætt um það hvaða útfærslu eða leiðir ætti að velja í sambandi við bannákvæði eða eftir atvikum heimildir til inngripa ef samkeppnisskilyrði væru ekki uppfyllt og ástæða gæti verið til að ætla að hlutur neytenda eða viðskiptavina væri fyrir borð borinn af þeim sökum. Markaðsráðandi staða er ekki bönnuð samkvæmt lögunum en misbeiting hennar er það og samkeppnisyfirvöldum er sömuleiðis heimilt að beita sér, t.d. með því að stöðva samruna fyrirtækja eða yfirtöku eins fyrirtækis á öðrum ef ástæða er til að ætla að það hafi verulega neikvæð áhrif á samkeppni.

Um þessi ákvæði var að sjálfsögðu mikið rætt í nefndinni. Eitt af því sem kom aftur og aftur upp var að ástæða væri til að fylgjast mjög grannt með því hvernig aukið frelsi í viðskiptum og ný löggjöf, ný umgjörð um viðskipti og samkeppni, reyndist og hver þróunin yrði. Niðurstaða af þeirri umræðu allri varð svo m.a. samkomulag um að leggja til við Alþingi að bráðabirgðaákvæði yrði sett í samkeppnislög nr. 8/1993, sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Samkeppnisráð skal á árunum 1993 og 1994 gera úttekt á stjórnunar- og eignatengslum milli fyrirtækja er starfa á íslenskum markaði. Skal þetta gert í því skyni að kanna hvort í íslensku viðskiptalífi sé að finna alvarleg einkenni hringamyndunar, óæskilegra tengsla eða valdasamþjöppunar sem takmarkað geti samkeppni eða hindrað frjálsa þróun viðskipta og skapi þar með hættu á brotum á lögum þessum.

Samkeppnisráð skal skila niðurstöðum sínum til viðskiptaráðherra er síðan leggi þær fyrir Alþingi í skýrslu.``

Þessi brtt. efh.- og viðskn. við frv. var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum gegn einu ef minni mitt svíkur ekki og ég held að ég muni þetta alveg örugglega rétt því þetta var nokkuð söguleg afgreiðsla og vakti athygli, ekki síst hið eina mótatkvæði.

Í beinu framhaldi af þessu var sem sagt það gert sem Alþingi fól samkeppnisyfirvöldum að gera og út kom skýrsla í desember 1994 um stjórnunar- og eignatengsl í íslensku atvinnulífi. Sú skýrsla markaði tímamót, það er enginn vafi á því. Rétt eins og lögin sjálf markaði þessi viðamikla kortlagning á viðskiptalífinu og stjórnunar- og eignatengslum í því veruleg tímamót. Slíkt hafði ekki áður verið gert með jafnskipulögðum og -yfirgripsmiklum hætti. Niðurstöðurnar voru áhugaverðar um margt. Það er mjög áhugavert fyrir menn í dag að lesa þessa skýrslu og helstu niðurstöður hennar og skoða af hverju menn höfðu áhyggjur á þessum árum og hverju ekki. Það er ýmislegt breytt síðan þetta var, á þessum tíu árum. Þannig býst ég við að mönnum yrði ekki eins tíðrætt um þær blokkir sem þá voru mjög til umræðu, kenndar við ýmis kvikindi í sjónum. Hlutur ríkisins var auðvitað umfangsmeiri á þeim árum en hann er í dag í atvinnulífinu, sérstaklega í fjármálageiranum. Þannig mætti áfram telja.

Á þeim tíma sátu stjórnendur fjármálafyrirtækja, oft bankastjórar, í stjórnum margra undirfyrirtækja, sjóða og stofnana. Þó að einhver brögð kunni að vera að slíku enn hygg ég að mönnum þætti athyglisvert að rifja upp hvernig staðan var á þessum tíma og hversu víða þræðirnir lágu í viðskiptalífinu.

Að ósk þingmanna Samf. var svo aftur unnin skýrsla með mjög svipuðu sniði sem kom út á vormánuðum 2001. Mig minnir að það hafi verið hv. fyrrv. þm., Sighvatur Björgvinsson, fyrrv. viðskrh., sem beitti sér fyrir þeim tillöguflutningi. Sú skýrsla er sömuleiðis viðamikið plagg og það varð strax fróðlegt að bera þessar tvær skýrslur saman. Þó nokkuð hafði breyst á þessum tíma, þessum sex eða sjö árum sem liðu á milli skýrslnanna, þó að sú fyrri hafi auðvitað á ýmsan hátt markað meiri tímamót, enda var þar um brautryðjendastarf að ræða.

[17:00]

Gögnum í skýrsluna sem út kom 2001 var safnað á árinu 2000 þannig að stuðst var aðallega við ársreikninga fyrirtækja og upplýsingar um stjórnir frá árinu 1999. Þar er því orðið um fimm, sex ára gamlar upplýsingar að ræða sem lágu til grundvallar niðurstöðum skýrslu númer tvö. Þó ekki kæmi annað til væri auðvitað þegar orðin ástæða til að fara yfir það hvort ekki væri kominn tími á þriðju úttektina af þessu tagi en svo bætist auðvitað við, sem ég geri ráð fyrir að hv. þingmönnum sé vel kunnugt, að gríðarlegar breytingar hafa orðið í viðskiptaumhverfinu á þessum tíma. Landslagið má heita gjörbreytt hvað varðar eignarhald og stjórnun á heilum sviðum viðskipta og er auðvitað á fleygiferð enn þann dag í dag, en það er þó enginn minnsti vafi á því að mjög fróðlegt væri að sjá nýja kortlagningu á þessu.

Það sem ekki síst vekur spurningar og hefur orðið mikil umræða um í þjóðfélaginu er sú samþjöppun eða sú mikla breyting sem orðið hefur á mörgum sviðum viðskipta þar sem fjöldi smærri aðila með dreifða eða litla markaðshlutdeild var áður við lýði en tveir eða fáeinir markaðsráðandi risar sitja núna að markaðnum. Til viðbótar þeirri klassísku fákeppni sem mönnum er vel kunnug frá fyrri tíð, að vísu eitthvað misgömul eins og á sviðum vátryggingastarfsemi, í olíuverslun, sjóflutningum og fleiru, hafa nú bæst heil svið viðskipta svo sem eins og flutningar á landi, matvöruverslun, lyfjadreifing, jafnvel fjármálastarfsemi og nú síðast fjölmiðlarekstur þar sem mönnum hefur orðið mjög tíðrætt um mikla uppstokkun og í mörgum tilvikum óumdeilanlega stóraukna fákeppni. Því það verður tæpast kallað annað að t.d. í stað nokkurra tuga sjálfstætt starfandi aðila, misstórra, allt frá einyrkjum og upp í allstór fyrirtæki sem önnuðust um flutninga á landi þangað til fyrir fáum árum, oft bundin við byggðarlög eða landshluta, ráða núna tvær keðjur lögum og lofum og eru nánast einráðar í flutningum á landi en tengdar stærra flutninganeti til útlanda í sjósamgöngum eða öðru.

Þróunin í sjávarútvegi hefur sömuleiðis verið mikið til skoðunar. Þó að ákvæði í lögum um stjórn fiskveiða, svonefnt kvótaþak, setji því nokkrar skorður hversu hratt sjávarútvegsfyrirtæki geta stækkað eða hve miklu þau sópa til sín, hefur samt vakið mikla athygli hversu mjög hlutur t.d. tíu stærstu aðilanna á því sviði hefur aukist. Í stað þess að hafa kannski um þriðjung veiðiheimilda á sinni hendi fyrir ekkert mjög löngu síðan hafa þau nú um helming eða eitthvað nálægt því, ef ég man rétt.

Það ætti, frú forseti, ekki að vera ástæða til í sjálfu sér að rökstyðja þetta miklu nánar. Ég hygg að bæði fordæmin frá tveimur fyrri skýrslum og öll umræða sem orðið hefur í þessum efnum á undanförnum mánuðum mæli náttúrlega sterklega í þessa átt. Sömuleiðis þær breytingar sem nú liggja fyrir og hlýtur að vera ákaflega fróðlegt fyrir menn að skoða og bera saman við það sem áður var. Og sú hefð sem þar með er smátt og smátt að skapast að á kannski u.þ.b. fimm ára fresti fari fram víðtæk úttekt og kortlagning á viðskiptaumhverfinu þar sem menn hafa sérstaklega í huga að beina sjónum að því, eins og lagt var upp með í upphafi 1993, að fylgjast með því hvort sýnileg merki séu um varhugaverða hringamyndun eða blokkamyndun, fákeppni sem skaðleg geti verið heilbrigðri samkeppni á markaði.

Ég ætla svo sem ekki að fara yfir í umræður sem líka mætti tína til sögunnar hvað varðar breytta starfshætti, breytt andrúmsloft, jafnvel breytt viðskiptasiðferði eins og sumir vilja meina. Það má líka velta því fyrir sér hvort slík úttekt geti á einhvern hátt tekið til þess þótt það sé kannski erfitt að mæla eða kortleggja þegar um mjög huglæg atriði er að ræða. En ef menn vilja gera úttekt sem feli í sér einhvers konar heilbrigðisskoðun á viðskiptaumhverfinu á hverjum tíma verður auðvitað einnig að reyna að líta til þeirra þátta sem snúa meira að hugarfari eða siðferði.

En þó að það séu ekki nema hinar borðleggjandi staðreyndir sem hægt er að taka saman í skýrslum af þessu tagi, þ.e. markaðshlutdeild einstakra fyrirtækja, hvernig eignarhaldi er háttað, hver tengsl þess eru við önnur fyrirtæki innan sama sviðs viðskipta eða á óskyldum sviðum, hvernig stjórnunartengsl eru í viðskiptalífinu o.s.frv., held ég það hljóti að teljast gagnlegar og áhugaverðar upplýsingar, að þær liggi fyrir og yfir slíkt sé farið með reglubundnum hætti. Áhugamönnum um þessi efni hlýtur að vera fengur að fá slíkt til samanburðar með reglubundnu millibili og eigi sú hefð að haldast að slíkar skýrslur liggi fyrir eða slík vinna sé unnin á u.þ.b. fimm ára fresti er ekki seinna vænna að leggja drög að þeirri þriðju í röðinni.

Ég leyfi mér einnig að vitna til þess, frú forseti, að hæstv. viðskrh. var inntur álits á tillögu þessari skömmu eftir að henni var dreift á Alþingi og ég held ég fari rétt með að hæstv. ráðherra tók ekki ólíklega í það að tímabært gæti verið að fara í uppfærslu á umræddum skýrslum með þeim hætti sem tillagan gerir ráð fyrir, eða eitthvað í þeim dúr hygg ég að ummæli hæstv. ráðherra hafi verið.

Ég vona þar af leiðandi að hv. þingnefnd, efh.- og viðskn. sem ég legg til að fái tillöguna til umfjöllunar að lokinni síðari umræðu, taki málið til vinsamlegrar skoðunar og að botn fáist í það á næstu vikum. Þetta er í sjálfu sér ekki mál sem á að þurfa að hanga lengi yfir, annaðhvort er Alþingi áfram þeirrar skoðunar, eins og það hefur í tvígang reynst vera, að það sé gagnlegt að fá svona plagg í hendur, eða ekki og á það væri í öllu falli mjög æskilegt að láta reyna fyrir vorið.