Stjórnunar- og eignatengsl í viðskiptalífinu

Þriðjudaginn 02. mars 2004, kl. 17:17:48 (4785)

2004-03-02 17:17:48# 130. lþ. 74.10 fundur 336. mál: #A stjórnunar- og eignatengsl í viðskiptalífinu# þál., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 130. lþ.

[17:17]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég held að það sé rétt hugsun að menn hafi aðgang að þeim upplýsingum sem hér er verið að tala um. Hins vegar er líka rétt að þessar upplýsingar úreldast hratt. Ég er á þeirri skoðun að nútíminn krefjist þess að menn fari eitthvað öðruvísi að en hefur verið gert og það ætti að vera auðvelt. Ég tel að upplýsingar af því tagi sem eru í þeim skýrslum sem hafa verið búnar til, og hefur verið farið ágætlega yfir af hv. frsm., ætti að uppfæra jafnóðum og aðgangur að þeim ætti að vera á einhvers konar heimasíðu á netinu. Við höfum Íslendingabók og því skyldum við ekki hafa bók þar sem hægt væri að skoða fyrirtækin í landinu, eignatengslin í þeim og að þau yrðu færð inn nokkurn veginn jafnóðum. Það ætti ekki að kosta meira en að búa til bækur á fimm ára fresti. Með því kæmust menn í þá stöðu að geta fylgst með atvinnulífinu og hið lýðræðislega aðhald, sem skortir á vegna þess að upplýsingar vantar, væri aukið og menn tækju til umræðu þær breytingar sem menn sæju að væru óæskilegar og reyndu að hafa áhrif á hlutina áður en einhver vandamál hafa grafið um sig.

Við höfum t.d. séð að eini fyrirtækjahópurinn sem menn hafa haft virkilega góðan aðgang og möguleika á að fylgjast með, er sá hópur sem hefur verið skráður í Kauphöllina. Þeim fyrirtækjum hefur verið að fækka. Menn hafa verið að draga þau fyrirtæki úr Kauphöllinni, en sem aldrei fyrr hafa verið breytingar á eignarhaldi fyrirtækja og mjög erfitt að fylgjast með í raun og veru. Menn geta reynt að gera það í gegnum fjölmiðla. Þar koma einstakar fréttir. En margt gerist án þess að almenningur, jafnvel þó menn reyni að fylgjast með, hafi þær upplýsingar í höndum. Aðgangur að þessum upplýsingum væri ómetanlegur til að gera sér grein fyrir því hvað er að gerast í þjóðfélaginu á hverjum tíma hvað þetta varðar.

Innlegg mitt í þessa umræðu er fyrst og fremst það að í hv. nefnd fari menn yfir hvort ekki sé rétt að hoppa inn í nútímann með þennan hlut og gera upplýsingar aðgengilegar þannig að allar þær breytingar sem máli skipta séu til staðar og menn viti nokkurn veginn hvar þeir standa, en séu ekki komnir í þau spor eftir árið að það taki því ekki að líta í bókina vegna þess að hún sé orðin of gömul. Þá er til lítils að vinna upp svona mál ef menn treysta ekki upplýsingunum sem þar eru nema í fáeina mánuði eftir að bókin er komin út.

Þetta var það sem ég vildi, hæstv. forseti, leggja inn í umræðuna. Ekki geri ég lítið úr málinu og tel fulla ástæðu til að menn fari yfir þetta, en vona að hægt sé að gera þetta með þeim hætti sem ég var að lýsa og um það geti orðið samstaða.