Útsendingar sjónvarps og hljóðvarps um gervitungl

Þriðjudaginn 02. mars 2004, kl. 17:51:36 (4789)

2004-03-02 17:51:36# 130. lþ. 74.11 fundur 473. mál: #A útsendingar sjónvarps og hljóðvarps um gervitungl# þál., GHj
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 130. lþ.

[17:51]

Guðjón Hjörleifsson:

Frú forseti. Hér er tekin til fyrri umræðu till. til þál. um útsendingar sjónvarps og hljóðvarps um gervitungl þar sem Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að láta gera á vegum Ríkisútvarpsins áætlun um kostnað og tæknilega útfærslu á því að senda dagskrár hljóðvarps og sjónvarps um gervitungl, svo og kostnað við búnað til að taka á móti þessum sendingum. Einnig komi fram áætlaður stofnkostnaður jarðstöðvar til að senda dagskrár til gervitungls og árlegur rekstrarkostnaður hennar.

Fjöldi Íslendinga býr við þau skilyrði að hafa lélegan eða engan aðgang að útsendingum Ríkisútvarpsins, einkum sjónvarpsins, en einnig í nokkrum mæli útvarpsins. Þar á ég við um fólk í dreifðum byggðum landsins þar sem móttökuskilyrði eru slæm svo og Íslendinga erlendis, en stór hópur er sjómenn á farskipum og fiskiskipum. Móttökuskilyrði sjónvarps hafa verið mjög misjöfn á hafinu umhverfis landið en sjómennirnir okkar eiga betra skilið.

Það er skoðun mín að á meðan ríkið stendur fyrir rekstri sjónvarps og útvarps og skyldar landsmenn til að greiða afnotagjöld þá verði leitað allra leiða til að koma sendingum þessara fjölmiðla til sem flestra Íslendinga.

Fyrir fáum árum kom það fram í svari hæstv. menntmrh. að gjörbylting hefði orðið í tæknibúnaði á þessu sviði á árunum 1995--1999 og að þær kostnaðartölur sem fram komu í svari hans og þær hugmyndir sem menn hefðu um hlutverk gervitungla við miðlun á sjónvarpsefni væru þess eðlis að þennan kost bæri að skoða af fullri alvöru. Auk þess væri ljóst að kostnaður við slíkar sendingar mundi frekar lækka en hækka.

Í greinargerð Boga Ágústssonar til útvarpsstjóra frá 20. nóv. 1998 kemur fram að heppilegustu gervitungl til sendinga til Íslands og miða umhverfis landið væru Intelsat 707 eða Thor II, en bæði þessi gervitungl eru rekin af norska símafyrirtækinu Telenor. Þar kemur einnig fram að sendingar frá þessum gervitunglum næðu til allra fiskimiða umhverfis Ísland, en mundu ekki gagnast á fjarlægari miðum, svo sem í Smugunni, því hún liggur utan geisla fyrrnefndra gervitungla.

Þá segir í greinargerð Boga Ágústssonar að slíkar sendingar mundu jafnframt nýtast Ríkisútvarpinu að nokkru leyti til stofndreifingar innan lands og að einstöku bæir sem ekki njóta útsendingar Ríkisútvarpsins mundu geta tekið við útsendingum beint frá gervitungli.

Um síðustu alþingiskosningar voru tilraunaútsendingar um gervitungl. Þar var einmitt leitað eftir tilboðum frá Telenor og ákveðið að ganga að þeim. Var ákveðið að senda út tvö kvöld og hefja sendingar á fréttum og senda lokaumræður leiðtoga kvöldið fyrir kjördag svo og sjálfa kosningavökuna.

Frú forseti. Í kjölfarið hafði SES ASTRA fyrirtækið samband við Ríkisútvarpið með milligöngu Engis ehf. sem er í íslenskri eigu og bauðst til að senda dagskrá sjónvarpsins og Stöðvar 2 án endurgjalds um tvö gervitungl í eigu fyrirtækisins Astra 2D og Astra 1H. Samningar um tilraunaútsendingar ASTRA voru undirritaðir og sendingar hófust með formlegri athöfn á Hótel Nordica.

Tilgangur þessara útsendinga var að kanna viðbrögð Íslendinga á hafi úti og erlendis á afgerandi hátt með raunverulegri dagskrá. Undirbúningur sendinganna var í höndum starfshóps fagmanna sem útvarpsstjóri fól að athuga möguleika á stafrænni dreifingu Ríkisútvarpsins um gervitungl. Auk sjómanna á hafi úti, sem náðu þessum sendingum, búa rúmlega 20 þúsund Íslendingar á þeim svæðum þar sem sendingar frá þessu gervitunglum sjást. Engi ehf. bauð fyrir hönd SES ASTRA að halda tilraunaútsendingum áfram í viku eftir kosningar og þáðu bæði Ríkisútvarpið og Stöð 2 það.

Viðbrögðin við þessum tilraunaútsendingum voru mjög jákvæð og gríðarlega mikil og létu ekki á sér standa. Mikill áhugi er meðal þeirra sem gátu nýtt sér þessar útsendingar og ósk er um áframhald. Það er ljóst að fjöldi íslenskra áhorfenda hefur skipt þúsundum. Jafnframt höfðu útlendingar samband við starfshópinn og lýstu ánægju sinni með þessar útsendingar. Niðurstöður starfshópsins eru afgerandi þar sem viðbrögð og áhorf var mjög gott og voru viðbrögð langt umfram það sem reiknað var með. Þessar útsendingar eru einnig félagslega góðar bæði fyrir sjómenn og Íslendinga erlendis en þeir komu saman á nokkrum stöðum til þess að fylgjast með umræðuþætti stjórnmálaleiðtoganna svo og kosningavöku sjónvarpsins.

Frú forseti. Tæknilega er ekkert því til fyrirstöðu að senda frá Íslandi um gervitungl en skoða þarf hvort hægt sé að auka tekjur Ríkisútvarpsins með einhverjum hætti í sambandi við slíkar útsendingar. Það kom jafnframt fram hjá nokkrum aðilum er búa erlendis að ekkert óeðlilegt væri að þeir greiddu einhverja hundraðkalla mánaðarlega til þess að koma til móts við rekstrarkostnað. Það er fljótt að safnast saman til móts við rekstrarkostnað ef 5--7 þús. aðilar eru tilbúnir að fara í áskrift erlendis.

Ég vil samt sem áður taka það fram að sjómenn eiga ekkert að greiða að mínu mati. Þeir greiða afnotagjald sitt hér á Íslandi þó svo að þeir geti ekki nýtt sér það sem skyldi vegna fjarveru sinnar frá heimili og þeir skila sannarlega sínu til samfélagsins í formi skattgreiðslna.

Þetta mál hefur oft verið tekið upp á Alþingi en nú þurfum við að sjá fyrir endann á því og vonandi verður það að veruleika á kjörtímabilinu.

Það er gaman að lesa yfir þær kveðjur sem nefndinni bárust og þau jákvæðu viðbrögð og þær miklu væntingar þeim fylgdu. Ég læt í lokin fylgja með vísu er barst frá áhöfninni á Höfrungi III AK, sem var send 11. maí 2003 kl. 6:35. Það var í lok kosningavöku og kominn galsi í menn. Hún er svona, með leyfi forseta:

  • ,,Samfylkingarstjarna skær
  • vanist hefur mörgu.
  • Skyldi Össur vera fær
  • að stjórna Ingibjörgu.``