Aukatekjur ríkissjóðs

Þriðjudaginn 02. mars 2004, kl. 18:01:39 (4792)

2004-03-02 18:01:39# 130. lþ. 74.12 fundur 509. mál: #A aukatekjur ríkissjóðs# (skráning félaga) frv., Flm. GÞÞ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 130. lþ.

[18:01]

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, með síðari breytingum. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson og Sigurður Kári Kristjánsson.

Málið er einfalt. Það felst í að gjöld fyrir skráningu félaga verði lækkuð sem og gjald fyrir skráningu loftfars til atvinnuflugs. Lækkun yrði mismikil eftir tegund þeirra félaga sem um ræðir en mest yrði hún fyrir skráningu hlutafélaga og samvinnufélaga. Þar mundi gjaldið lækka úr 150 þús. kr. í 40 þús. kr. Lækkun gjalda fyrir skráningu annarra félaga yrði minni. Skráningargjöld félaga eftir breytinguna yrðu þó aldrei hærri en 40 þús. kr. Þá mundi skráningargjald fyrir loftfar til atvinnuflugs lækka úr 60 þús. kr. í 40 þús. kr.

Alþjóðabankinn gefur út samanburð á því hversu mikla fyrirhöfn og fjármuni þarf til að stofna fyrirtæki eftir löndum. Þegar bornar eru saman aðstæður til stofnunar fyrirtækja í ýmsum nágranna- og samkeppnislöndum Íslands kemur í ljós að hér á landi er framkvæmdin nokkuð skilvirk og einföld. Hins vegar liggur fyrir að kostnaðurinn hér er hár í samanburði við þessi lönd. Nemur kostnaður við stofnun einkahlutafélags hér á landi um 3,7% af vergri landsframleiðslu á mann en er enginn í Danmörku svo dæmi sé tekið. Í Finnlandi telst kostnaðurinn vera 1,1%, í Svíþjóð 0,7% og 0,6% í Bandaríkjunum.

Fyrir skráningu hlutafélags og samvinnufélags hefur verið tekið gjald sem nemur 150 þús. kr. Fyrir skráningu einkahlutafélags er þessi fjárhæð 75 þús. kr. Gjald fyrir aðrar skráningar hefur verið allt að 75 þús. kr. Þá hefur umskráning einkahlutafélags í hlutafélag kostað 75 þús. kr.

Framangreind gjöld eru bein skattheimta og varða ekki sjálfa skráninguna. Kostnaði af skráningum fyrirtækja er mætt með skráningargjaldi sem kveðið er á um í reglugerð nr. 474/2003, um útgáfu kennitölu við skráningu í fyrirtækjaskrá, með stoð í lögum nr. 17/2003, um fyrirtækjaskrá.

Ástæðan fyrir því að þetta mál er fram komið er í stuttu máli einfaldlega sú að engin ástæða er fyrir því að þessi gjöld séu sérstakur tekjustofn fyrir ríkissjóð. Hér er ekki um að ræða háar upphæðir, hvorki skráningargjöldin sem slík eða tekjur ríkissjóðs. Þær muna hins vegar miklu fyrir þá aðila, sérstaklega ungt fólk, sem fara út í fyrirtækjarekstur. Það munar um þessi gjöld og þetta mál er fyrst og fremst fram komið til að auðvelda nýsköpun og auðvelda ungu fólki að fara í fyrirtækjarekstur.

Eins og ég hef sagt getum við verið ánægð á Íslandi með hversu framarlega við stöndum að því leyti að kerfið er einfalt og skilvirkt. Ef við lítum á samanburð við önnur lönd þá erum við með mun fleiri frumkvöðla og fleiri aðila sem stofna fyrirtæki en þekkist í öðrum löndum. Það breytir því ekki að við eigum alltaf að stefna að því að gera betur. Það er engin ástæða til að nota þetta sem sérstakan tekjustofn fyrir ríkissjóð. Við ættum að hafa í huga að reyna að efla frumkvöðlastarfsemi og nýsköpun eins og mögulegt er. Þá aðila, sérstaklega ungt fólk sem hefur ekki mikið fjármagn milli handanna, munar virkilega um þessa fjármuni. Stærri fyrirtæki, sem stundum fara eðli málsins samkvæmt í stofnun fyrirtækja og hlutafélaga, munar ekki um þetta en þau minni munar um þetta.

Hér er í raun um að ræða lagafrv. til að auðvelda þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í fyrirtækjarekstri og hafa ekki mikið fjármagn milli handanna að fara út í atvinnustarfsemi. Ég vonast til að þingið taki vel á þessu máli.

Ég legg til að málinu verði vísað til hv. efh.- og viðskn. að lokinni þessari umræðu.