Skipun stjórnar Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn

Miðvikudaginn 03. mars 2004, kl. 13:33:18 (4801)

2004-03-03 13:33:18# 130. lþ. 75.91 fundur 375#B skipun stjórnar Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn# (aths. um störf þingsins), MÁ
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 130. lþ.

[13:33]

Mörður Árnason:

Forseti. Hæstv. umhvrh. hefur nú skipað nýja stjórn fyrir Náttúrurannsóknastöðina við Mývatn sem hafði orðið nokkur dráttur á. Það vekur athygli að skipaður er nýr stjórnarformaður og þessi nýi formaður er forstjóri Umhverfisstofnunar, einnar helstu undirstofnunar umhvrn. Eitt af hlutverkum stjórnarinnar er einmitt að vera þessari sömu Umhverfisstofnun til ráðuneytis um framkvæmd laganna um verndun Mývatns og Laxár. Í reglugerð um þetta frá 1978 sem Vilhjálmur Hjálmarsson undirritaði stendur enn fremur að stjórnin geti falið formanni að láta í té umsögn fyrir sína hönd.

Það má auðvitað kalla þetta vinnusparnað í stjórnsýslunni, a.m.k. frímerkjasparnað, þegar Davíð Egilson, ágætur forstjóri Umhverfisstofnunar, skrifar Davíð formanni stjórnar Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn og biður um ráð og svo sest Davíð Egilson, formaður stjórnar Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn, niður aftur við sömu tölvuna og svarar Davíð, forstjóra Umhverfisstofnunar.

Þetta er auðvitað sérkennilegt en það er enn þá skrýtnara að í sumar tilnefndi Umhverfisstofnun sem formann stjórnar allt annan mann, Gísla Má Gíslason prófessor, sem hefur undanfarin allmörg ár gegnt þessu trúnaðarstarfi með miklum sóma. Þessi tilnefning frá í sumar var svo afturkölluð án skýringar 30. janúar sl. með bréfi frá forstjóra Umhverfisstofnunar sem síðan skrifaði annað bréf til hæstv. umhvrh. þar sem forstjórinn tilnefndi sjálfan sig til formennskunnar.

Þetta er undarleg stjórnsýsla og vægast sagt illur þefur af þessum vinnubrögðum og í ljósi þessa og atburðarásarinnar síðustu daga og vikur í málefnum Mývatns og Laxár er eðlilegt að hæstv. ráðherra gefist hér tækifæri til að lýsa gangi mála og hún svari skýrt hvort heldur er um að ræða dómgreindarleysi og hringlanda hjá viðkomandi embættismanni, forstjóra Umhverfisstofnunar, eða óeðlileg afskipti hæstv. umhvrh. sjálfs af tilnefningum í þessa stjórn.