Sjúkraflutningar Landhelgisgæslunnar

Miðvikudaginn 03. mars 2004, kl. 14:13:28 (4817)

2004-03-03 14:13:28# 130. lþ. 75.95 fundur 379#B sjúkraflutningar Landhelgisgæslunnar# (umræður utan dagskrár), GHj
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 130. lþ.

[14:13]

Guðjón Hjörleifsson:

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu sem fram fer um sjúkraflutninga Landhelgisgæslunnar. Staðan í dag er sú að uppsögn á samningi við Landhelgisgæsluna hefur komið frá heilbrigðisyfirvöldum sem hafa fengið eingreiðslu en á móti hafa læknar verið til taks og sinnt útköllum. Hér er sennilega um það að ræða að kostnaður er orðinn of mikill og laun standa ekki undir samningsbundnum framlögum. Hlutverk þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar er mjög mikilvægt í almannaþágu og því er mikilvægt að öryggis- og almannavarnarþáttur sé skoðaður sérstaklega á tímamótum sem þessum.

Uppsögn þessa samnings er tækifæri til að fara í frekari skoðun á skipulagi reksturs Gæslunnar. Sjúkraflutningar innan lands í dag byggjast að miklu leyti á samningum við flugfélög sem í flestum tilfellum staðsetja flugvélar á viðkomandi svæði eða í nálægð þess.

Landhelgisgæslan hefur oft verið kölluð út í sérstökum tilfellum á þessa staði og hefur alltaf brugðist vel við. En þegar kemur á haf út og í óbyggðum þá er þyrla eina björgunartækið sem við höfum og við Íslendingar höfum verið stoltir af þeim miklu björgunarafrekum sem þessir aðilar hafa unnið.

Ef við skoðum hvernig bandaríska kerfið er byggt upp þá er í þyrluáhöfninni bráðatæknir í stað læknis en læknisfræðileg forsjá þarf að vera tryggð þannig að alltaf sé hægt að hafa fjarskiptasamband við lækni.

Hér á landi hefur vel verið staðið að því að þjálfa upp sérmenntaða starfsmenn og slökkviliðið hefur mótað sérstaka stefnu í þeim efnum, þ.e. að sjúkraflutningamenn hafa farið í nám erlendis í bráðafræðum fyrir bráðatækna. Voru 12 slíkir hér í starfi og tveir eru í námi. Samtals eru þetta 14 aðilar.

Bráðatæknar í dag eru orðnir aðalkennarar í Sjúkraflutningaskólanum. Þeir koma að sérhæfðri kennslu, t.d. fyrir björgunarsveitarmenn. Þekking þeirra er mjög mikilvæg bæði á sviði heilbrigðisþjónustu svo og björgunar.

Frú forseti. Ég er ekki að segja að þetta sé það sem koma skal en nauðsynlegt er að fara vandlega yfir þetta mál og koma með niðurstöðu áður en uppsögn núverandi samnings rennur út. Ég treysti hæstv. dómsmrh. fullkomlega til að koma með ásættanlegar tillögur um framtíðarsýn í málefnum þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar.