Svar við fyrirspurn

Miðvikudaginn 03. mars 2004, kl. 14:29:52 (4824)

2004-03-03 14:29:52# 130. lþ. 76.91 fundur 380#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 130. lþ.

[14:29]

Björgvin G. Sigurðsson:

Frú forseti. Ég finn mig knúinn til að kveðja mér hljóðs um störf þingsins af því tilefni að þann 28. október sl., þ.e. fyrir rúmum fjórum mánuðum, lagði ég fram fyrirspurn til menntmrh. um það hvort til athugunar væri í ráðuneytinu að taka upp frekari skólagjöld í Háskóla Íslands, strangari inntökupróf eða fjöldatakmarkanir í skólann til að mæta fjárþörf hans. Háskólinn glímir nú við alvarlegan fjárskort sem þýðir að annaðhvort þarf hann að vísa 900 umsækjendum um nám frá skólanum eða taka upp harkalegar fjöldatakmarkanir eða há skólagjöld á grunnnám fái hann ekki aukin fjárframlög þar sem hann fær ekki greitt fyrir alla nemendur skólans. Breytir kennslusamningurinn fyrir árið 2004 engu þar um, enda hafði hann hvorki áhrif á fjárveitingu þessa árs né hámark fjölda virkra nemenda sem nú eru 5.200. Háskólinn spáir því að fjöldi virkra nemenda verði að óbreyttu 5.750 haustið 2004 og aukningin svari til u.þ.b. 900 skráðra nemenda.

Þessari fyrirspurn er enn þá ósvarað þó að þingsköp kveði á um að fyrirspurnum skuli svarað innan átta daga. Ráðuneytið hefur ekki látið svo lítið að fara fram á frest til svars eins og alsiða er.

Nú bregður svo við að í dag er menntmrh. á þingfundi og svarar fyrirspurnum. Óskaði ég sérstaklega eftir því að umræddri fyrirspurn yrði svarað þar sem hún hefur nú náð 100 daga aldrinum. Við þeirri sjálfsögðu ósk var ekki orðið, eins og sjá má af dagskrá þingsins í dag, og sætir það furðu að ráðherra vilji ekki ræða fjársvelti Háskóla Íslands með því að svara hinni öldnu fyrirspurn.

Því beini ég því til hæstv. forseta að hún taki málið upp í forsn. þar sem verið er að þverbrjóta þingsköp. Ég óska eftir því við hæstv. ráðherra að hún gefi skýringar á því af hverju fyrirspurninni hefur ekki verið svarað og af hverju hún er ekki á dagskrá þingsins hér í dag.