Svar við fyrirspurn

Miðvikudaginn 03. mars 2004, kl. 14:31:52 (4825)

2004-03-03 14:31:52# 130. lþ. 76.91 fundur 380#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 130. lþ.

[14:31]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil strax í upphafi máls míns mótmæla því sérstaklega að Háskóli Íslands sé í einhverju fjársvelti. Við höfum tekið efnislega umræðu um einmitt þetta mál.

Ég hef reynt síðan ég hóf störf sem menntmrh. að svara fyrirspurnum eftir bestu getu og vitund og reynt að koma þeim hratt frá mér. Mér skilst að á tveim þingfundum sé ég búin að svara 12--14 fyrirspurnum.

Varðandi nákvæmlega þessa fyrirspurn, varðandi skólagjöldin, vill svo til að við tókum umræðu utan dagskrár sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson var einmitt málshefjandi að. Þar bar hann upp þær spurningar sem koma fram í fyrirspurninni. Þar svaraði ég eftir því sem ég gat, eftir bestu vitund, nákvæmlega þessum spurningum.

Frá því að þessi utandagskrárumræða átti sér stað hefur ekkert nýtt komið fram í málinu nema það að það er auðvitað fagnaðarefni að Samf. og talsmenn hennar eru reiðubúnir til að ræða orðið skólagjöld og það sem fylgir. Ég fagna þeirri hugarfarsbreytingu því að ég hef alla tíð sagt að við eigum að þora að ræða um skólagjöld, um kosti þeirra og ekki síður galla. Á þeirri forsendu læt ég m.a. fara fram, undir umsjón og eftirliti Ríkisendurskoðunar, stjórnsýslu- og fjárhagsúttekt á málefnum Háskóla Íslands til þess að við getum átt hér faglega umræðu um þá valkosti sem við höfum til að styrkja og efla Háskóla Íslands.

Kannski er það eina nýja í þessari umræðu, hæstv. forseti, um skólagjöld frá hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni þar sem hann berlega lætur í ljósi í grein sinni í Morgunblaðinu um skólagjöld að hann sé tilbúinn til að leggja skólagjöld á framhaldsháskólanám og sér því ekkert til fyrirstöðu að ræða það frekar. Það er meira en ég hef sagt.