Svar við fyrirspurn

Miðvikudaginn 03. mars 2004, kl. 14:40:07 (4830)

2004-03-03 14:40:07# 130. lþ. 76.91 fundur 380#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), JGunn
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 130. lþ.

[14:40]

Jón Gunnarsson:

Frú forseti. Ég verð enn og aftur að lýsa undrun minni á svörum hæstv. menntmrh. við því sem hér er lagt fram. (Gripið fram í.) Þingsköp gilda í þingsal. Burt séð frá því hvort ráðherrar fá fyrirspurnir sem þeir telja sig þurfa að svara eða ekki svara gilda hér þingsköp, hæstv. ráðherra, og það ber að svara fyrirspurnum eða gera þá ráðstafanir til að fá formlega fresti á því að svara þeim. Það verður gera einhverjar enn aðrar ráðstafanir ef hæstv. ráðherra telur að fyrirspurnin sé ekki þingtæk en ekki að láta hana liggja í 100 daga án þess að það heyrist múkk eða hljóð úr horni úr hinu háa ráðuneyti.

Mér finnst hæstv. ráðherra sem nýr ráðherra koma í pontu og sýna hv. málshefjanda ákveðinn hroka. Hv. þm. hefur fullt leyfi til að ganga eftir því héðan úr þessum stól að hann fái svar við þeirri fyrirspurn sem fyrir liggur. Það þýðir ekkert fyrir hæstv. ráðherrann að hlaupa í einhverja vörn og fýlu yfir því.

Hæstv. ráðherra sagði að menn þyrftu að þora að tala um skólagjöld. Hæstv. ráðherra sagði líka að menn þyrftu að þora að tala um fjöldatakmarkanir. Ég bara skora á hæstv. ráðherra að þora að tala um þetta hér og svara þessari fyrirspurn. (Gripið fram í.)