Tilkynningarskylda og afmörkun siglingaleiða

Miðvikudaginn 03. mars 2004, kl. 14:51:37 (4834)

2004-03-03 14:51:37# 130. lþ. 76.1 fundur 356. mál: #A tilkynningarskylda og afmörkun siglingaleiða# fsp. (til munnl.) frá samgrh., GAK
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 130. lþ.

[14:51]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni fyrir að koma með þetta mál hér til umræðu og fagna því sem kom fram í máli hæstv. samgrh. að málið sé í ákveðnum farvegi og að því sé unnið og tillögur að fyrirkomulagi um afmörkun siglingaleiða muni líta dagsins ljós á þessu ári.

Mikil nauðsyn er orðin á að slíkt siglingaöryggisplan varðandi hættulegan farm skipa sé til staðar hér á landi og það er auðvitað sérstaklega svæðið frá Dyrhólaey og vestur um að Faxaflóa sem er hugað að í því sambandi. Nú upplifum við það hins vegar að á olíuskipum í innanlandsflutningum eru erlendar áhafnir við stjórnvölinn. Við því vil ég eindregið vara og tel að séum við að bjóða þar hættunni heim og það væri ekki aftur tekið ef illa tækist til við siglingu slíkra skipa hér við land.