Tilkynningarskylda og afmörkun siglingaleiða

Miðvikudaginn 03. mars 2004, kl. 14:54:28 (4836)

2004-03-03 14:54:28# 130. lþ. 76.1 fundur 356. mál: #A tilkynningarskylda og afmörkun siglingaleiða# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 130. lþ.

[14:54]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka undirtektir hv. þingmanna við þessu svari. Ég vil geta þess alveg sérstaklega að fyrirspyrjandi, hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, hefur sýnt þessu máli mikinn áhuga eins og kemur fram í því að hann var 1. flm. þeirrar þáltill. sem það starf sem nú er unnið að er í rauninni byggt á og þar er lögð mjög rík áhersla á öryggi við ströndina. Það er mikilvægt að þingmenn séu vel á verði og standi vaktina þegar svo mikilvæg mál eru til meðferðar í þinginu.

Aðeins til viðbótar við það sem ég sagði í svari mínu þá er þetta svokallaða AIS-kerfi sem Alþjóðasiglingamálastofnunin gerir ráð fyrir að tekið sé upp, og við erum að taka upp hér og er komið í gagnið að hluta, þannig að farþegaskip og olíuskip skulu öll hafa þennan búnað 1. júlí sl. Skip stærri en 50 brúttótonn, önnur en farþegaskip og olíuskip, skulu búin AIS-búnaði í síðasta lagi 1. júlí á þessu ári. Öll skip, þ.e. flutningaskip frá og með 300 brúttótonn eða stærri skulu búin AIS-búnaði eigi síðar en 31. desember á þessu ári. Þetta horfir því allt miklu betur og við erum að setja þennan búnað upp.

Ég vil taka undir það sem fram kom hjá hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni að ég hef miklar áhyggjur af því að áhafnir skipa sem sigla hér við ströndina hafi ekki þekkingu eða þjálfun eins og þarf og að skipafélögin sem sinna flutningum við ströndina skuli velja þann kost að leita eftir sjómönnum til annarra landa, sem e.t.v. byggir á því að ekki eru greidd mjög há laun til þeirra og að það skuli vera útgangspunkturinn í þeim rekstri. Ég harma að svo skuli vera.