Öryggi sjúkraflugvallar á Djúpavogi

Miðvikudaginn 03. mars 2004, kl. 15:02:51 (4839)

2004-03-03 15:02:51# 130. lþ. 76.2 fundur 616. mál: #A öryggi sjúkraflugvallar á Djúpavogi# fsp. (til munnl.) frá samgrh., BJJ
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 130. lþ.

[15:02]

Birkir J. Jónsson:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka þessa fyrirspurn hv. þm. Þuríðar Backman og tel hana hreyfa við mjög þörfu máli. Þetta er mjög mikilvæg umræða sem hér fer fram því við erum að ræða um mikið öryggismál fyrir íbúa landsbyggðarinnar og ég vil meina að hér sé um mikið prinsippmál að ræða. Við erum að tala um slíkt öryggisatriði fyrir fólk í hinum dreifðu byggðum að það hefur mjög mikil áhrif á öryggistilfinningu fólks á viðkomandi stöðum og þar með áhrif á búsetu á þeim stöðum.

Ég fagna því sem ráðherra sagði að hann er með vinnuhóp starfandi að þessum málum. Ég bind miklar vonir við starf vinnuhóps ráðherra og segi það hér að 300 þús. kr. fyrir sveitarfélag líkt og Djúpavog er kannski ekki mjög há upphæð miðað við hve gríðarlegur öryggisþáttur sjúkraflugvöllur er, m.a. á Djúpavogi og í sveitarfélögum hringinn í kringum landið.