Bundið slitlag á þjóðvegi nr. 1

Miðvikudaginn 03. mars 2004, kl. 15:24:22 (4851)

2004-03-03 15:24:22# 130. lþ. 76.3 fundur 627. mál: #A bundið slitlag á þjóðvegi nr. 1# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi GÞÞ
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 130. lþ.

[15:24]

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir svar hans og sömuleiðis þeim hv. þm. sem tóku þátt í umræðunni. Það er alveg ljóst að vilji ráðherra er að strax í endurskoðun í haust verði sett það markmið að hringveginum verði lokað, ef þannig má að orði komast, á næstu fjórum árum sem er mjög mikilvægt. Á sama hátt heyri ég á hæstv. ráðherra, sem og mörgum hv. þm. og ég held í rauninni þingheimi öllum, að það er sérstakt markmið eins og ég tók fram í fyrirspurn minni að auka öryggið á þessum vegi sem og öðrum. Það er auðvitað lykilatriði. Hins vegar getum við endalaust bætt í sem betur fer þegar kemur að samgöngum. Ég er sammála hv. þm. Birki J. Jónssyni sem sagði að hugsanlega væri mesta byggðastefnan góðar samgöngur. Hann tilgreindi sérstaklega, sem ég held að sé alveg hárrétt hjá hv. þm., að það skipti máli, ekki bara fyrir okkur Reykvíkinga heldur fyrir landsmenn alla, að Sundabrautin komist á koppinn, ef þannig má að orði komast, og verði framkvæmd sem allra fyrst. Það er ekki síður landsbyggðarmál en málefni Reykvíkinga.

Ég verð því að segja eins og er, ef þetta er tekið saman, að ég er afskaplega ánægður með umræðuna í dag og þakka hv. þm. fyrir innlegg þeirra. Það var flest allt gott og menn vöktu athygli á mörgum góðum málum. Sömuleiðis þakka ég hæstv. ráðherra fyrir sköruleg svör. Í mínum huga er alveg ljóst að við munum sjá hringveginn með bundnu slitlagi innan fárra ára og mun ég hvetja og styðja hæstv. ráðherra í því máli eins og mörgum öðrum.