Bundið slitlag á þjóðvegi nr. 1

Miðvikudaginn 03. mars 2004, kl. 15:26:23 (4852)

2004-03-03 15:26:23# 130. lþ. 76.3 fundur 627. mál: #A bundið slitlag á þjóðvegi nr. 1# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 130. lþ.

[15:26]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Opnun hringvegarins og uppbygging hans í framhaldinu hefur alveg sérstaka merkingu í mínu pólitíska lífi. Ég er því jafnan tilbúinn til að tala um hann vegna þess að árið 1974 fluttist ég úr borginni út á land til að taka þátt í starfi á vettvangi stjórnmálanna. Það hvetur mig því fremur en dregur úr mér kjarkinn til að fást við þetta verkefni.

Hv. þm. Einar Már Sigurðarson lagði áherslu á að hvert ár yrðu eyrnamerkt tiltekin verkefni í uppbyggingu sem hann kallaði ,,svarta bletti`` í vegakerfinu. Þetta er einmitt gert. Á hverju einasta ári leggjum við til í þágu umferðaröryggisaðgerða tilteknar breytingar á vegakerfinu sem er uppbygging nýrra brúa og uppbygging vegakerfisins sem dregur úr slysahættu.

Hv. þm. Mörður Árnason sagði réttilega að við ættum að leggja áherslu á framkvæmdir í vegagerðinni þar sem arðsemin er mest. Í mínum huga er arðsemin langmest þar sem við erum að bæta vegakerfið og eyða hættulegum köflum á vegakerfinu, eyða einbreiðum brúm og slæmum köflum á vegakerfinu úti um land. Þar er arðsemin langmest. Ef við getum komið í veg fyrir slysin á vegakerfinu er mikill arður fólginn í fjárfestingunni.

Þess vegna fagna ég yfirlýsingu hv. þm. og er sannfærður um að hann mun verða mér drjúgur fylgismaður í því að ná fram fjármunum í þinginu til uppbyggingar vegakerfisins um allt land, en ekki horfa eingöngu á þar hvar umferðin er mest, vegna þess að okkur tekst verulega vel upp í uppbyggingu vegamannvirkjanna á höfuðborgarsvæðinu og þau umferðarmannvirki eru hvergi nær fullnýtt eins og þau eru í dag.