Afnotagjöld Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 03. mars 2004, kl. 15:42:16 (4860)

2004-03-03 15:42:16# 130. lþ. 76.5 fundur 581. mál: #A afnotagjöld Ríkisútvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., EMS
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 130. lþ.

[15:42]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Það er athyglisvert sem sem fram kemur hjá hv. þingmönnum Framsfl., að þeir óttast mjög að ef Ríkisútvarpið verði sett á föst fjárlög verði sjálfstæði þess ógnað. En þeir hljóta að þekkja til í sínum eigin ranni. Þetta hlýtur að segja meira um hvernig rætt er um Ríkisútvarpið hjá ríkisstjórnarflokkunum en við þekkjum almennt, (Gripið fram í.) vegna þess, hv. þm., að fjárlög eru til þess ætluð að afmarka fjármuni til opinberra stofnana og Ríkisútvarpið getur auðvitað fallið undir það eins aðrar stofnanir. Ef hv. þm. á við það að ríkisstjórnin komi almennt þannig fram við opinberar stofnanir að það sé ekki þorandi að hafa þær á fjárlögum þá skil ég hvað hv. þm. er að fara. (Gripið fram í.)

Hins vegar má benda hv. þm. á að það er engin hætta á ferðum til langs tíma litið. Sú ríkisstjórn sem nú situr mun ekki sitja að eilífu og það styttist óðum í að ríkisstjórnin fari frá. Þá munum við auðvitað geta tryggt sjálfstæði Ríkisútvarpsins þrátt fyrir að Ríkisútvarpið verði á fjárlögum. (Forseti hringir.) Enda held ég að það sé rétt að horfa til þess og vonandi kemur hæstv. ráðherra með skýrari svör í seinni ræðu sinni varðandi hug hæstv. menntmrh. til Ríkisútvarpsins. Hæstv. ráðherra gæti jafnframt svarað því hvort hún ætlar að láta Sjálfstfl. halda útvarpinu í gíslingu áfram eins og verið hefur.

(Forseti (BÁ): Forseti hvetur þingmenn til þess að gefa ræðumönnum hverju sinni tækifæri til að ljúka máli sínu. Forseti hvetur jafnframt ræðumenn til þess að halda sig innan tímamarka.)