Afnotagjöld Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 03. mars 2004, kl. 15:48:18 (4865)

2004-03-03 15:48:18# 130. lþ. 76.5 fundur 581. mál: #A afnotagjöld Ríkisútvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi ÁÓÁ
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 130. lþ.

[15:48]

Fyrirspyrjandi (Ágúst Ólafur Ágústsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svörin og ég þakka einnig þeim hv. þm. sem tóku þátt í þessari umræðu. Svör hæstv. ráðherra voru hins vegar efnislítil og laus við stefnu. Hæstv. ráðherra er enn að kynna sér málin eins og hún svarar oftast þegar beint er til hennar spurningum um málaflokk hennar. Við skulum vona að kynningartímanum fari senn að ljúka.

Þetta mál er þeim mun einfaldara sem það hefur oft verið til umræðu í flokki hæstv. ráðherra en mörg flokkssystkini hennar vilja beinlínis leggja niður Ríkisútvarpið. Samf. vill hins vegar Ríkisútvarpinu vel en það verður að gæta hagkvæmni og sanngirni í tekjuöflun til þeirrar starfsemi. Ég tel það miður hversu óskýr hæstv. menntmrh. er í svörum sínum um efnahagslega afstöðu sína. Ég skynjaði eilítinn ótta í svörum hæstv. ráðherra um að færa RÚV undir fjárlög og þá um leið undir þingið en því má ekki gleyma að upphæð afnotagjaldsins er núna einungis undir ákvörðunarvaldi ráðherrans sem e.t.v. eykur möguleika enn frekar á pólitísku tangarhaldi á stofnuninni en ella. Afnotagjöld eru úrelt innheimtuaðferð sem er dýr, óskilvirk og óvinsæl. Við þurfum að huga að öðrum leiðum til að fjármagna þessa mikilvægu stofnun og kemur að sjálfsögðu margt til greina.

Það er hins vegar greinilegt að hjá ríkisstjórninni ræður stefnuleysi för í þessum málaflokki eins og öðrum.