Auglýsingar í Ríkisútvarpinu

Miðvikudaginn 03. mars 2004, kl. 15:52:12 (4867)

2004-03-03 15:52:12# 130. lþ. 76.6 fundur 582. mál: #A auglýsingar í Ríkisútvarpinu# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi ÁÓÁ
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 130. lþ.

[15:52]

Fyrirspyrjandi (Ágúst Ólafur Ágústsson):

Herra forseti. Fyrirspurnin fjallar um afstöðu hæstv. menntmrh. til auglýsinga í Ríkisútvarpinu. Hinn íslenski fjölmiðlamarkaður mótast mikið af tilvist Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Í raun segir það allt sem segja þarf um hina erfiðu stöðu sem íslenskir fjölmiðlar hafa búið við að allir stóru fjölmiðlarnir fyrir utan Morgunblaðið hafa skipt um eigendur á síðustu þremur árum. Tilvist svo öflugs ríkisfjölmiðils á auglýsingamarkaði birtist m.a. í rekstrarerfiðleikum annarra fjölmiðla og dregur mátt úr metnaðarfullri dagskrárgerð. En hin öfluga staða RÚV á auglýsingamarkaðnum kemur jafnframt í veg fyrir að nýir aðilar komist inn á hann.

Auglýsingatekjur RÚV árið 2002 voru um 730 millj. kr. og tekjur af kostun um 95 millj. Hjá einkastöðvunum voru auglýsingar þá um 1.500 millj. og kostun um 430 millj. Ríkisútvarpið er því með meira en þriðjung af þessum auglýsingamarkaði.

Ríkisútvarpið er ekki aðeins með ráðandi stöðu á auglýsingamarkaðnum heldur fær það að auki 2,2 milljarða með skyldubundnum afnotagjöldum. RÚV fær auk þess stórfé úr ríkissjóði en tap á rekstri RÚV 2001 og 2002 var yfir 500 millj. kr.

Hér er ekki verið að tala fyrir því að ríkisfjölmiðill eigi ekki rétt á sér, nema síður sé. Sérstök rök eru fyrir tilvist ríkisfjölmiðils á fjölmiðlamarkaðnum eins og öryggis- og fræðsluhlutverk stofnunarinnar ber með sér. Þessi rök eiga hins vegar ekki við um starfsemi ríkisfjölmiðils á auglýsingamarkaðnum. Ríkisútvarpið er stöðugt að færa út kvíarnar á auglýsingamarkaðnum og nú síðast hefur það byrjað að starfrækja sérstaka vefverslun ásamt því að selja auglýsingar á vef stofnunarinnar. Það eru engin öryggis- og menningarleg rök fyrir því að RÚV sé ráðandi aðili á auglýsingamarkaði. Í ljósi réttlætingarinnar um tilvist RÚV er heldur ekki heppilegt að gera dagskrárgerð RÚV einum of háða mögulegri auglýsingasölu. Við megum ekki gera einkaframtaki í fjölmiðlaheiminum svo erfitt fyrir að nánast útilokað sé að reka slík fyrirtæki til lengri tíma á Íslandi. Ég tel því nauðsynlegt að takmarka umsvif Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaðnum verulega. En vel er hægt að hugsa sér að kostun þátta, tilkynningar í útvarpi og jafnvel skjáauglýsingar verði áfram eða jafnvel takmarka auglýsingar við ákveðinn tíma.

Auglýsingatekjur eru um 30% af heildartekjum RÚV. Að sjálfsögðu þyrfti að bregðast við þessu tekjutapi, t.d. með því að auka greiðslur úr ríkissjóði eða hagræða starfseminni. Það væri einfaldlega fórnarkostnaður af því grundvallaratriði að niðurgreiddur ríkisfjölmiðill eigi ekki að taka virkan þátt á samkeppnismarkaði. Ég spyr því hæstv. menntmrh. hvort hún muni beita sér fyrir því að Ríkisútvarpið hverfi af auglýsingamarkaði og ef svo er, hvenær verður af því?