Auglýsingar í Ríkisútvarpinu

Miðvikudaginn 03. mars 2004, kl. 15:57:51 (4869)

2004-03-03 15:57:51# 130. lþ. 76.6 fundur 582. mál: #A auglýsingar í Ríkisútvarpinu# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., MÁ
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 130. lþ.

[15:57]

Mörður Árnason:

Forseti. Þetta mál varðar meira en möguleika auglýsenda á að finna sér markhópa. Þetta mál varðar hlutverk Ríkisútvarpsins, þá stefnu sem á að setja því á fjölmiðlamarkaðnum og raunar rammann í kringum fjölmiðlamarkaðinn allan. Það er þess vegna sem Samf. hefur sett fram þá framtíðarstefnu að Ríkisútvarpið eigi ekki að keppa á auglýsingamarkaðnum, eigi ekki að vera í samkeppnisstöðu um auglýsingar, heldur eigi hlutverk þess að vera annað. Það eigi að vera að flytja menningarlegt, lýðræðislegt og gott efni fyrir fólkið og vera í forustu á þeim markaði öllum. Þetta gerist auðvitað yfir langan tíma og ekki þannig að um neina byltingu verði að ræða. En hvers vegna?

Það er annars vegar vegna þess að Ríkisútvarpið hefur ekki gott af því að taka þátt í þessari samkeppni. Samkeppnin hefur þá bein áhrif á dagskrána, miðast við þau kaup á eyrinni að selja auglýsendum aðgang að markaðnum. Hins vegar er það vegna þess að það er eðlilegt að markaðsstöðvarnar, þær sem byggja tilvist sína á markaðnum og ekki á opinberum fjárframlögum, eigi þennan vettvang.