Auglýsingar í Ríkisútvarpinu

Miðvikudaginn 03. mars 2004, kl. 16:00:34 (4871)

2004-03-03 16:00:34# 130. lþ. 76.6 fundur 582. mál: #A auglýsingar í Ríkisútvarpinu# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi ÁÓÁ
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 130. lþ.

[16:00]

Fyrirspyrjandi (Ágúst Ólafur Ágústsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svörin. Ég vil einnig þakka þeim hv. þingmönnum sem tóku þátt í þessari umræðu.

Það er hagur okkar allra að hafa fjölbreytilega flóru fjölmiðla og því fjölbreyttari sem flóran er því betur eru hagsmunir auglýsenda tryggðir til lengri tíma. Það er líka enginn að tala um að gera þessa breytingu á einu bretti eða hafa hana algera. Með fleiri fjölmiðlum fjölgar auglýsingakostum og verð lækkar.

Auglýsingamarkaðurinn er samkeppnismarkaður. Það á ekki að vera hlutverk ríkisfjölmiðils að hafa ráðandi stöðu á samkeppnismarkaði. Það er grundvallaratriði. Stjórnmálamenn verða að gera upp við sig hvaða afstöðu þeir hafa til slíkra grundvallaratriða. Þar eru jafnaðarmaðurinn í stjórnarandstöðunni og hægri konan í sæti ráðherrans einfaldlega ósammála. Fyrir mitt leyti er það einfaldlega meira virði að ríkisfjölmiðill þrengi ekki svo að einkareknum fjölmiðlum að þeir verði í stöðugum rekstrarerfiðleikum en sem nemur þeim kostnaðarauka sem verður hugsanlega á ríkissjóði við slíka breytingu.

Ég vil að Ríkisútvarpið fái að njóta sín. Það hefur ákveðna sérstöðu. En það má hins vegar ekki misnota þessa sérstöðu til að koma öðrum fjölmiðlum á kné og skekkja þar með samkeppnismarkaðinn.

Ríkisvaldið hefur verið að fara út af samkeppnismarkaði í mörgum atvinnugreinum og það er vel. Það er tímaskekkja, herra forseti, og beinlínis hættulegt fjölbreyttri fjölmiðlaflóru að ríkið þrengi að frjálsum fjölmiðlum með þessum hætti. Ég vona að hæstv. ráðherra átti sig á þessu fyrr en seinna.