Lán til leiklistarnáms

Miðvikudaginn 03. mars 2004, kl. 16:10:11 (4876)

2004-03-03 16:10:11# 130. lþ. 76.7 fundur 584. mál: #A lán til leiklistarnáms# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 130. lþ.

[16:10]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þessa umræðu og áhuga á leiklistarnáminu. Ég velti því fyrir mér, eftir að hafa fylgst með leiklist og leiklistarnámi í æðimörg ár, hvort það væri ekki allt eins gott fyrir íslenskt leiklistarlíf að hafa sem mesta flóru leikara, ekki eingöngu leikara sem koma frá Listaháskólanum, áður Leiklistarskóla Íslands, heldur fáum við meiri breidd. Við eigum frábæra leikara sem hafa útskrifast frá Bristol Old Vic. Ég gæti þulið upp fleiri merkilegar leiklistarstofnanir erlendis en ég vil ekki túlka það sem neikvætt að við fáum til landsins leikara sem menntaðir eru erlendis.

Að sjálfsögðu er rétt að huga að þessum málum og þá sérstaklega að því hvort fjórða árið eigi að koma til kasta leiklistardeildar Listaháskóla Íslands. Við vitum hins vegar að þetta nám er óhemju dýrt og við höfum valið þessa leið til að tryggja ákveðið framboð af leiklistarnámi hér á landi en þó með þessum takmörkunum.