Breyttar áherslur dómsmálaráðherra í lögreglumálum

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 10:33:09 (4878)

2004-03-04 10:33:09# 130. lþ. 77.94 fundur 384#B breyttar áherslur dómsmálaráðherra í lögreglumálum# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[10:33]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hæstv. dómsmrh. hefur kynnt í fjölmiðlum hugmyndir um breyttar áherslur við skipan löggæslumála í landinu. Sérsveit lögreglunnar verður efld, fjölga þarf liðsmönnum úr 21 í 50 og yfirstjórn sveitarinnar verður færð undan embætti lögreglunnar í Reykjavík og undir embætti ríkislögreglustjóra.

Á heimasíðu dómsmrn. segir eftirfarandi um framhaldið, með leyfi forseta:

,,Að því er síðan stefnt á næstu árum að fjölga sérsveitarmönnum frekar, þannig að sveitinni verði gert kleift að sinna lágmarkskröfum, með tilliti til almenns öryggis og skuldbindinga Íslands vegna flugverndar, siglingaverndar og friðargæslu.``

Síðar segir:

,,Sú efling sérsveitarinnar sem hér er boðuð er nokkuð kostnaðarsöm. Kostnaður við fjölgun lögreglumanna hjá lögreglustjóranum í Reykjavík um 10 og við rekstur vaktbifreiðar sérsveitarinnar nemur tæpum 60 millj. kr. á ársgrundvelli. Ætla má að kostnaður við frekari stækkun sveitarinnar á næstu árum nemi um 250 millj. kr. þegar allt er talið.``

Ein hlið á þessum málum er vissulega hin fjárhagslega og hvernig að fjárveitingum er staðið. Það skiptir máli. Ég tel mikilvægt að fram fari kröftug umræða um það efni. Mestu máli skiptir þó að fá umræðu um þau skref sem hér er verið að stíga til framtíðar í löggæslumálum á Íslandi, hvernig fjármunum er forgangsraðað í löggæslunni þegar til lengri tíma er litið. Eins þarf að skoða hvort hér komi til með að kveða við annan tón en verið hefur um áratugi. Í stað áherslu á forvarnir og almenna löggæslu beina menn kröftum sínum í að efla vígvæddar löggæslusveitir og hafa eftirlit með borgurunum í þeim anda sem boðað hefur verið á Vesturlöndum undir formerkjum stríðs gegn hryðjuverkum.

Athygli vekur að eins konar viðlag í mörgum viðtölum við hæstv. dómsmrh að undanförnu um þessar kerfisbreytingar hefur verið tilvísun til hryðjuverkaárásanna í Bandaríkjunum 11. september árið 2001. Í einu slíku viðtali sagði hæstv. ráðherra Björn Bjarnason svo að dæmi sé tekið, með leyfi forseta:

,,Þessar ráðstafanir eiga rætur að rekja til endurmats á stöðu þjóðfélaganna eftir 11. september 2001 þar sem menn töldu og telja að nauðsynlegt sé að gera meiri ráðstafanir en áður til að auka öryggi borgaranna, m.a. vegna hættu á hryðjuverkum.``

Í öðru viðtali lét ráðherra eftirfarandi ummæli falla, með leyfi forseta:

,,En skilin á milli þess sem her sinnir og lögregla hafa verið að breytast á undanförnum árum og atburður eins og hryðjuverkaárásir og slíkir atburðir kalla á önnur viðbrögð af hálfu lögreglunnar en menn ætluðu fyrir nokkrum árum.``

Ekki verður fram hjá því litið að Björn Bjarnason hefur lengi verið mikill áhugamaður um að koma á fót íslenskum her. Sú spurning vaknar hvort því sé eins farið með hann og skoðanabræður hans í Washington, að þeir hrindi í framkvæmd stefnu sem lengi hefur blundað með þeim, undir formerkjum stríðs gegn hryðjuverkum. Í Bandaríkjunum og víða á Vesturlöndum hefur eftirlit með borgurunum stóraukist og er þess að minnast að við umræður um lagabreytingar sem tengjast öryggismálum hér á landi á allra síðustu árum hafa þingmenn VG aftur og ítrekað varað við að fela ríkislögreglustjóra of mikil völd og hvatt til opinnar stjórnsýslu.

Hér vakna ýmsar spurningar um sjálfan eftirlitsaðilann, þann aðila sem er falið að tryggja öryggi ríkisins, eins og það heitir. Aftur vísa ég í frásagnir fjölmiðla af fréttamannafundi dómsmrh. í vikunni. Fréttablaðið hefur orðrétt eftir hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

,,Málefni sérsveitarinnar eru þess eðlis að menn ræða ekki svo mikið um innra skipulag eða búnað og annað slíkt. Hún á hins vegar að vera til taks og ef farið er yfir verkefnin þá eru þetta verkefni sem eru á mörkum þess að vera óeirðarverkefni og mjög sérhæfð verkefni.``

Þetta var bein tilvitnun í hæstv. dómsmrh. Eitthvað er þetta orðið leyniþjónustulegt tal. Þá vakna spurningar um undir hvaða lög þessi þáttur öryggisgæslunnar komi til með að falla. Mun hann falla undir upplýsingalög? Munu dómstólar eða almenningur geta krafist upplýsinga sem unnið er með á vegum þessarar öryggisgæslu?

Því fer fjarri að Íslendingar séu komnir eins langt og Bandaríkjamenn og margar aðrar þjóðir í alls kyns öryggiseftirliti en rétt er að spyrja: Stefnum við í sömu átt? Þetta er eðlileg spurning í ljósi þeirra yfirlýsinga sem nú heyrast úr dómsmrn.

Á Íslandi höfum við búið við löggæslu þar sem áhersla hefur verið lögð á nálægð við almenning og vinsamleg samskipti. Nú ætla ég ekki að gera meira úr þeim breytingum sem hafa verið kynntar en efni standa til og ekki ætla ég hæstv. dómsmrh. að hann vilji draga úr friðsamlegum samskiptum borgara og lögreglu. Þá finnst mér ástæða til að þakka ráðherra fyrir viðleitni til samráðs við samtök lögreglumanna um þessar kerfisbreytingar.

Hinu skulum við þó ekki horfa fram hjá, að þessar áherslubreytingar eru í nákvæmlega sama anda og stjórnlyndir menn á Vesturlöndum boða undir yfirskriftinni: Stríð gegn hryðjuverkum.

Ég spyr því: (Forseti hringir.) Koma öryggissveitirnar til með að verða hjúpaðar leynd? Hver verður aðgangur almennings að upplýsingum um starfsemi þeirra? Á hvern hátt tengjast breyttar áherslur aukinni upplýsingaöflun um borgarana? Hvað segir hæstv. ráðherra um (Forseti hringir.) þær gagnrýnisraddir að þær skipulagsbreytingar sem nú eru á döfinni séu liður í aukinni miðstýringu undir embætti ríkislögreglustjóra, jafnvel á kostnað almennrar löggæslu?

Ég bið hæstv. forseta afsökunar á að hafa farið yfir tímamörk.