Breyttar áherslur dómsmálaráðherra í lögreglumálum

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 10:46:10 (4881)

2004-03-04 10:46:10# 130. lþ. 77.94 fundur 384#B breyttar áherslur dómsmálaráðherra í lögreglumálum# (umræður utan dagskrár), DJ
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[10:46]

Dagný Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér ræðum við mjög mikilvægt mál sem snertir okkur öll hvar sem við búum í landinu.

Ég vil í upphafi fagna þeim áherslum og þeim breytingum sem hæstv. dómsmrh. hefur boðað í löggæslumálum. Ég tel engan vafa leika á því að í ljósi vaxandi hörku í afbrotum er brýnt að efla sérsveitarlöggæslu á landinu öllu. Við þurfum ekki annað en að horfa á fréttatíma í sjónvarpinu og það fer kannski hálfur þáttur í að fjalla um glæpi, afleiðingar þeirra og dómana. Þetta er því miður hluti af því þjóðfélagi sem við búum í, hluti sem við kærum okkur ekki um. Við viljum ekki búa við það að bankarán séu daglegt brauð, að fólk treysti sér ekki orðið út eitt á kvöldin af ótta við að verða fyrir árás eða að menn keyri um landið þvert og endilangt til þess eins að fela lík. Við þessu öllu og fleiru til eru stjórnvöld að bregðast.

Hæstv. dómsmrh. er að leggja til tímabæra styrkingu lögreglunnar og með þessum aðgerðum er mikilvægt að huga að því að verið er að auka öryggi lögreglumanna og þar með almennings alls. Það er ekkert grín fyrir óvopnaða lögreglumenn að leggja líf sitt í hættu við að fást við vopnaða menn í misjöfnu ástandi. Nú munu þeir njóta liðsinnis sérsveitarmanna í auknum mæli og vonandi skilar það sér fljótt í t.d. öflugum aðgerðum gegn glæpagengjum. Sérsveitarmönnum mun ekki bara fjölga hér á höfuðborgarsvæðinu heldur einnig á Keflavíkurflugvelli og á Akureyri.

Málflutningur sumra aðila í þessu máli hefur verið á lágu plani og lýsir kannski best málefnafátækt þeirra. Mér finnst ómaklegt að ráðast á hæstv. dómsmrh. fyrir það eitt að vilja auka öryggi fólksins í landinu með eflingu löggæslunnar.