Breyttar áherslur dómsmálaráðherra í lögreglumálum

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 10:48:04 (4882)

2004-03-04 10:48:04# 130. lþ. 77.94 fundur 384#B breyttar áherslur dómsmálaráðherra í lögreglumálum# (umræður utan dagskrár), SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[10:48]

Sigurjón Þórðarson:

Frú forseti. Það hefur komið fram í umfjöllun um eflingu sérsveitar lögreglunnar að dómsmálaráðuneytið hefur haft hraðar hendur við ákvarðanatökuna. Undirbúningurinn tók aðeins þrjá mánuði. Hæstv. dómsmrh. verður að svara tveimur spurningum sem vakna í tengslum við þetta mál.

Sú fyrri er: Hvað var það sem kallaði á að umrædd ákvörðun var tekin með slíkum hraði? Hvað lá á?

Hin síðari er: Hvað kallaði nákvæmlega á einmitt þessa ákvörðun um einmitt þessa eflingu sérsveitarinnar, þ.e. að í sveitinni fjölgi úr 16 í 50? Ég heyrði það ekki í svörum hæstv. ráðherra áðan. Var það byggt á mati einhverrar nefndar, starfshóps eða eingöngu byggt á einlægum áhuga ráðherrans á hermálum?

Menn hafa reynt að geta í eyðurnar og sumir hafa látið sér detta í hug að verið sé að láta gamlan bernskudraum rætast með því að efla sérsveitina. Ekki ætla ég að fullyrða að svo sé, en það er eins og mig minni að hæstv. ráðherra hafi fengið fleiri hugmyndir sem ég vonast til að verði ekki framkvæmdar með sama hraði, svo sem stofnun íslensks hers, endurreisn klausturs í Viðey og að senda varðskip til Júgóslavíu á meðan stríð geisaði.

Auðvitað er hér um illa rökstudda skyndiákvörðun að ræða og vægast sagt sérkennilega forgangsröðun. Hæstv. ráðherra skuldar þjóðinni útskýringar á þessari forgangsröðun. Var efling sérsveitarinnar brýnna verkefni en t.d. að tryggja skilvirkni dómstóla, en dómarar landsins hafa séð sig knúna til að benda á fjárskort dómstóla? Var efling sérsveitarinnar brýnna verkefni en að tryggja að Landhelgisgæslan geti unnið störf sín vel og tryggilega?

Landhelgisgæslan er í fjársvelti þrátt fyrir mjög óábyrgar yfirlýsingar hæstv. ráðherra í gær um að svo væri ekki. Það voru ekki til fjármunir til að kaupa nætursjónauka í þyrlur til björgunarstarfa og varla til fjármunir til að gera út skip Gæslunnar.