Breyttar áherslur dómsmálaráðherra í lögreglumálum

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 10:50:23 (4883)

2004-03-04 10:50:23# 130. lþ. 77.94 fundur 384#B breyttar áherslur dómsmálaráðherra í lögreglumálum# (umræður utan dagskrár), AtlG
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[10:50]

Atli Gíslason:

Frú forseti. Hæstv. dómsmrh. hefur í hyggju að eyða tugum milljóna kr. á þessu ári og hundruðum á þeim næstu í svokallaðar sérsveitir lögreglu, ef fram fer sem horfir, og það án heimilda í fjárlögum eins og staðan er í dag.

Ég spyr: Telur hæstv. dómsmrh. þetta virkilega vera brýnasta verkefni dómsmrn.?

Sé málið sett í samhengi við raunveruleika íslensks samfélags er forgangsröðunin nánast eins og í leikhúsi fáránleikans. Því skyldi ég segja það? Jú, lögreglumenn og samtök lögreglumanna hafa margsinnis gert grein fyrir því með rökstuddum hætti að nægilegar fjárveitingar hafi ekki verið tryggðar til almennrar löggæslu bæði í Reykjavík og á landsbyggðinni. Það kom berlega í ljós á fundum stjórnmálamanna með lögreglumönnum fyrir kosningarnar sl. vor. Launakjörum lögreglumanna hefur hrakað. Með tillögunum er miðstýring aukin en þjónusta við almenning, grenndarþjónustan, situr á hakanum. Hin almenna löggæsla í miðborg Reykjavíkur og einstökum hverfum Reykjavíkur mun sitja á hakanum þrátt fyrir brýna þörf á að efla hana.

Ég hélt auk þess að allir væru sammála um að forvarnir og barátta gegn fíkniefnabölinu væru brýnustu verkefni lögreglu í dag. Af hverju eru sérsveitarpeningarnir ekki lagðir í þá málaflokka og vegið að rótum vandans í staðinn fyrir að hanga í afleiðingunum?

Síðast en ekki síst: Dómskerfið er í slíku fjársvelti að réttaröryggi er teflt í tvísýnu. Í þeim efnum tek ég satt best að segja meira mark á málefnalegum ályktunum Dómarafélags Íslands en hvatvíslegum viðbrögðum hæstv. dómsmrh. Áform um sérsveitir lögreglu eru ekki raunhæft svar lýðræðisins við hryðjuverkum. Þar er Íraksstríðið víti til varnaðar.