Breyttar áherslur dómsmálaráðherra í lögreglumálum

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 10:54:34 (4885)

2004-03-04 10:54:34# 130. lþ. 77.94 fundur 384#B breyttar áherslur dómsmálaráðherra í lögreglumálum# (umræður utan dagskrár), HHj
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[10:54]

Helgi Hjörvar:

Virðulegur forseti. Hæstv. dómsmrh. hefur lýst því yfir að uppáhaldskvikmynd hans sé Die Hard, en þar bjargar hetjan hundruðum úr klóm hryðjuverkamanna. En, frú forseti, þetta er Ísland í dag en ekki Die Hard, og, herra Björn Bjarnason, þér eruð enginn Bruce Willis.

Verkefnin í íslensku samfélagi eru knýjandi í almennri löggæslu, í eflingu fíkniefnalögreglunnar, í því að koma sýslumannsembættinu í Keflavík út úr gámunum, í því að tryggja dómstólunum starfsskilyrði. En í stað þess að fara í skýluna og sinna þessum aðkallandi verkefnum stekkur dómsmrh. fram með stóreflingu sérsveitarinnar, Víkingasveitarinnar.

En tilkynni, herra höfuðsmaður, að Víkingasveitin hefur sem betur fer ekki haft neitt allt of mikið að gera, og það er ekkert í verkefnum hennar sem kallar á þennan fjáraustur. Aukinn vopnabúnaður lögreglu mun aðeins kalla á aukna hörku í glæpaheimum og þessi sveit mun ekki ráða niðurlögum al Kaída.

Nei, það eina sem hér hefur gerst skyndilega er að hæstv. dómsmrh. hefur boðið sig fram gegn Geir H. Haarde til embættis utanrrh. Og rétt eins og George Bush sýnist honum vænlegt að nota öryggismál og skelfingar hryðjuverka til að markaðssetja sig í þeirri kosningabaráttu sem fram undan er á milli þeirra tveggja.

Það er fagnaðarefni að varaformaður fjárveitinganefndar skuli hafa lýst því yfir að dómsmrh. fái ekki peninga almennings í þennan leiðangur sinn, enda væri ódýrara, frú forseti, fyrir ríkissjóð Íslands að kaupa bara einkennisbúning handa hæstv. dómsmrh. til að leika sér í heima.