Breyttar áherslur dómsmálaráðherra í lögreglumálum

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 10:56:33 (4886)

2004-03-04 10:56:33# 130. lþ. 77.94 fundur 384#B breyttar áherslur dómsmálaráðherra í lögreglumálum# (umræður utan dagskrár), KHG
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[10:56]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég hygg að erfitt sé að mæla á móti því sem fram kemur hjá hæstv. dómsmrh. að tilefni er til að taka þessi mál til endurskoðunar. Það er vaxandi ofbeldishneigð í þjóðfélaginu og glæpir verða alvarlegri með hverju árinu sem líður. Það er hlutverk dómsmrh. sem yfirmanns lögreglumála í landinu að skoða þessi mál og gera tillögur um breytingar eftir því sem hann telur þörf á.

Þær tillögur sem hann hefur lagt fram eru að auka löggæsluna með þessum hætti. Ég get ekki lagt mat á það hvort þetta séu endilega þær tillögur sem ég tel réttastar, ég hef engar forsendur til þess, hef engar upplýsingar um málið frá þeim aðilum sem til þess þekkja, þannig að ég get ekki lagt mitt mat á það. Ég einfaldlega veit að ráðherra hefur sett sig ofan í þessi mál og þetta er hans tillaga í málinu. Við hljótum að taka hana alvarlega.

Ég geri hins vegar ráð fyrir því að við hljótum að ræða þessi mál hér á Alþingi í fyllingu tímans og hæstv. dómsmrh. hlýtur að beita sér fyrir því. Mér finnst augljóst að það hlýtur að koma til þess að menn skoði hvort tveggja, að efla almenna löggæslu og líka hitt að efla sérsveitir lögreglunnar. Ég hygg að við getum ekki lokað augunum fyrir því að bæði úrræðin eru möguleg og kunna að vera nauðsynleg.

Ég tel það líka víðs fjarri að jafnvel þótt sérsveitin sé efld sé á nokkurn hátt hægt að kalla það íslenskan her, þó við megum aldrei gleyma því að fyrir tveimur öldum tókst Jörundi hundadagakonungi að leggja Ísland undir sig með fáa tindáta og sennilega færri en 50 sérsveitarmenn.

Ég vil leggja áherslu á eitt í þessu máli, herra forseti, að þau útgjöld sem kunna að felast í tillögunum umfram það sem er að finna í fjárlögum, að heimildanna verði leitað fyrir þeim á Alþingi. Fjárveitingavaldið er hér á Alþingi en ekki hjá ríkisstjórninni.