Breyttar áherslur dómsmálaráðherra í lögreglumálum

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 11:02:46 (4889)

2004-03-04 11:02:46# 130. lþ. 77.94 fundur 384#B breyttar áherslur dómsmálaráðherra í lögreglumálum# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[11:02]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Hæstv. dómsmrh. segir að ekki standi til að stofna her á Íslandi. Sjálfur segir hann þó að skilin á milli hers og lögreglu séu harla óljós á hryðjuverkaöld. Þessu er ég algerlega ósammála.

Hins vegar er það rétt hjá hæstv. ráðherra að skilin á milli hers annars vegar og vopnaðrar grímuklæddrar sérsveitar hins vegar eru orðin harla óljós.

Spurt er hvernig eigi að efla forvarnir í þjóðfélaginu, eða öryggi öllu heldur. Hvernig á að efla og auka öryggi borgaranna og einnig lögreglunnar? Ég tel að það eigi að gera með því að efla forvarnir og almenna löggæslu úti á meðal almennings í hverfum borgarinnar, ef við lítum á höfuðborgarsvæðið, og ég held að hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður allshn., eigi að kynna sér hvernig staðan er þar því að hún er alls ekki nógu góð.

Því fer fjarri að hörð löggæsla með vopnabúnaði tryggi öruggara samfélag. Við getum litið annars vegar til Bandaríkjanna og hins vegar til Kanada þar sem áherslur eru ólíkar hvað þetta snertir. Öflugt velferðarkerfi með virkum forvörnum er líklegra til að tryggja öruggara samfélag. Þetta er sýn okkar í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði. Þetta er líka sú arfleifð sem Íslendingar byggja á og innan íslensku lögreglunnar hefur leit hinna friðsamlegu og vinsamlegu samskipta við borgarana jafnan verið í heiðri höfð. Þannig hafa t.d. samtök íslenskra lögreglumanna jafnan lagst gegn því að íslenskir lögreglumenn bæru vopn að staðaldri. Þetta eru þær áherslur sem hafa einkennt íslenskt samfélag.

Ég vil að lokum ítreka þá spurningu sem ég vék að í upphafi: Hvað með leyniþjónustuþáttinn? Hvað með leyndarhjúpinn sem á að sveipa starf sérsveitarinnar og hæstv. ráðherra hefur vikið að í ummælum sínum?