Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 11:49:05 (4894)

2004-03-04 11:49:05# 130. lþ. 77.1 fundur 279. mál: #A stjórnarskipunarlög# (bráðabirgðalög, þingseta ráðherra) frv., Flm. KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[11:49]

Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka þingmanninum fyrir málefnalega ræðu. Það er aðeins eitt atriði sem ég vil taka fyrir í andsvörum svo það sé afgreitt af minni hálfu strax, það sem fram kemur í áliti Ragnhildar Helgadóttur, lektors í Háskólanum í Reykjavík.

Eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson gat um kemur fram í greinargerðinni með frv. að álit lektorsins hefur að geyma þá niðurstöðu hennar að hún telur að nær hafi verið gengið ákvæðum stjórnarskrárinnar við setningu bráðabirgðalaganna í sumar en dæmi eru um frá 1991. Það staðfestir mat lektorsins á því að tilhneigingin er að útvíkka heimildina, túlka hana rúmar en áður var.

Í öðru lagi kemur fram hjá lektornum það mat hennar að of nærri hafi verið gengið skilyrðum 28. gr. stjórnarskrárinnar eins og greinin verður skýrð. Það er hennar mat. Hitt er alveg rétt sem þingmaðurinn bætti við að lektorinn telur ólíklegt að dómstólar mundu dæma þessi bráðabirgðalög ólögmæt. Ég dreg alveg öfuga ályktun út frá þessu öllu samanlögðu miðað við þingmanninn. Mér finnst það einmitt vera rökstuðningur fyrir því að það er nauðsynlegt fyrir þá sem eru þessarar skoðunar, eins og ég og t.d. lektorinn, að leggja fram frv. og breyta þessu ákvæði. Ég vil reyndar ganga það langt að fella það alveg niður.