Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 11:51:06 (4895)

2004-03-04 11:51:06# 130. lþ. 77.1 fundur 279. mál: #A stjórnarskipunarlög# (bráðabirgðalög, þingseta ráðherra) frv., SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[11:51]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þar greinir okkur á, hv. þm. Kristin H. Gunnarsson og mig. Ég tel að vegna tilvika þar sem hugsanlega, undir einhverjum kringumstæðum, hafi verið gengið nærri ákvæðum stjórnarskrárinnar verði ekki til tilefni til að breyta stjórnarskránni. Ég tel að framkvæmdin eins og hún hefur verið, þ.e. að ákvæðinu hefur verið beitt sem undantekningarákvæði frá breytingu stjórnarskipunarlaganna 1991, leiði til þess að við höldum ákvæðinu inni. Það að hugsanlega hafi verið gengið nærri stjórnarskránni eða að um afmarkað tilvik sé að ræða þar sem lektorar bæði slá í og úr getur ekki leitt til þess að við sjáum okkur knúin til að breyta stjórnarskránni. Okkur greinir á um þetta, mig og flm. Ég tel að meira þurfi til, ríkara tilefni til þess að breyta stjórnarskránni vegna þeirra bráðabirgðalaga sem sett voru á umræddu þingi. Þetta er bara ágreiningur. Sjónarmiðið er ágætt og málefnalegt en ég er bara ekki sammála.