Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 11:55:03 (4897)

2004-03-04 11:55:03# 130. lþ. 77.1 fundur 279. mál: #A stjórnarskipunarlög# (bráðabirgðalög, þingseta ráðherra) frv., SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[11:55]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Aftur greinir okkur á, mig og hv. þm. Kristin H. Gunnarsson. Ég er ekki sammála því að ákvæði 28. gr. stjórnarskrárinnar eins og það er núna sé opið og matskennt. Ég tel að ákvæðið sé miklu fremur þröngt og skilyrt, mjög þröngt og skilyrt, og ástæðan er sú sem ég nefndi í ræðu minni, það er gerð krafa um brýna nauðsyn til þess að slík lög séu sett. Lögin hljóta síðan afgreiðslu á Alþingi þegar þingið kemur saman og telji menn enn á ný að skilyrðin séu ekki uppfyllt sætir slíkt mat úrskurði dómstóla. Ég veit í sjálfu sér ekki hversu miklu lengra hægt er að ganga til þess að þrengja og skilyrða þessa heimild. Ég ítreka það sem ég sagði að ég tel að ákvæðið eins og það er núna sé ekki opið og matskennt heldur miklu fremur þröngt og afar skilyrt.