Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 12:06:33 (4899)

2004-03-04 12:06:33# 130. lþ. 77.1 fundur 279. mál: #A stjórnarskipunarlög# (bráðabirgðalög, þingseta ráðherra) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[12:06]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka flm. þessa frv., hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni, fyrir frv. Þetta er mjög þörf umræða sem við tökum hér í dag. Frv. er í tveim liðum, annars vegar að heimild til bráðabirgðalaga verði felld niður og hins vegar að ráðherrar séu ekki þingmenn.

Um þetta er að segja að heimildin til bráðabirgðalaga hefur verið þrengd mjög og það er vel að mínu mati vegna þess að tilskipanavald er ekki lýðræðislegt og auðvitað á Alþingi að semja öll lög og samþykkja. Menn hafa í því sambandi bent á að fjarskipti og samgöngur hafi batnað svo mjög að hægt sé að kalla saman Alþingi hvenær sem er. Virðast menn gera ráð fyrir því að öll kerfi okkar mannanna, vegir og fjarskipti og rafmagn og allt slíkt, séu orðin einhver náttúrulögmál en þau eru það að sjálfsögðu ekki. Allt getur þetta brugðist og sú staða getur komið upp að hvorki samgöngur né fjarskipti virki. Þá er spurningin: Hvað ætla menn að gera?

Ég held að það sé ekki skynsamlegt að taka heimildina algjörlega út en það mætti þrengja hana enn frekar með því að segja að ef ekki takist að kveðja Alþingi saman, segjum innan tveggja daga, skuli heimilt að setja bráðabirgðalög. Þá er náttúrlega búið að þrengja þetta þannig að bráðabirgðalög yrðu ekki sett nema undir einhverjum ógnaraðstæðum.

Varðandi hitt atriðið, með ráðherra á þingi, hef ég alltaf haft miklar efasemdir um hvernig þær persónur sem gegna embætti ráðherra og þingmanna samtímis eiga að bregðast við þegar kemur t.d. að eftirlitshlutverki Alþingis með framkvæmdarvaldinu. Það er enn fremur snúið hvernig þetta geti samrýmst þegar kemur að því að horfa til þrískiptingar valdsins í dómsvald, framkvæmdarvald og löggjafarvald. Ég er hlynntur því að þingmenn víki af þingi ef þeir gerast ráðherrar tímabundið og kallaðir verði inn varamenn.

Hins vegar finnst mér hv. þingmaður ekki ganga nógu langt, ekki hugsa dæmið til enda. Ég vil fækka þingmönnum um 12, hafa þá bara 51 þannig að sætaskipanin yrði bara svipuð nema að stjórnarflokkarnir fengju náttúrlega aukið vægi sem þingmenn. Það er líka eðlilegt því að þá tæki þingið ákvarðanir og greiddi atkvæði en ekki ráðherrar. Ráðherrar mundu mæta í þingið eingöngu þegar um væri að ræða mál sem þeir flytja sjálfir, þá hefðu þeir málfrelsi en ekki atkvæðisrétt og bara við 1. umr. Síðan mundu þeir mæta þegar um væri að ræða fyrirspurnir til ráðherra. Þetta er nokkurn veginn eins og raunveruleikinn er í dag, eins og hv. þm. sjá, þannig að það yrði ekki mikil breyting á því. Þá yrði heldur ekki kostnaðarauki ef sú leið yrði farin að fækka þingmönnum um 12.

Það er ýmislegt athyglisvert í þessu. Í fyrsta lagi situr ríkisstjórn í skjóli þings. Það brýtur þessa hugsun um þrískiptingu valdsins en það er erfitt að hugsa sér annars lags lausn á því. Síðan er náttúrlega annað sem ég hef margoft bent á, að lög eru að mestu leyti samin utan Alþingis --- það finnst mér mjög miður --- og einnig það að Alþingi ákveður mikið af framkvæmdum með fjárlagafrv. sem mér finnst líka miður. Þarna þyrftu menn að vera agaðri í því að semja sjálfir frv. á Alþingi, sem eru samþykkt, og hins vegar að vera ekki að falla í þá freistni að standa í framkvæmdum. Það er hlutverk framkvæmdarvaldsins og það á að bera ábyrgð á því en að sjálfsögðu ber enginn ábyrgð á þeim framkvæmdum sem Alþingi ákveður. Ekki getur Alþingi sjálft haft eftirlit með því.

Svo er eitt í viðbót sem er mjög undarlegt þegar maður les stjórnarskrána, forsetaembættið. Það er eins konar konungur, ímynd eða mynd af konungi. Burt séð frá þeirri persónu sem gegnir því embætti í dag og þeim persónum sem hafa gegnt því embætti til þessa vil ég skoða mjög alvarlega að það embætti verði fellt niður, að það verði bara horfið alveg frá því að hafa embætti forseta Íslands og að forseti Alþingis yfirtaki það hlutverk sem þarf að gegna. Það mætti jafnvel hugsa sér að forseti Alþingis yrði kosinn úr hópi þingmanna í þjóðaratkvæðagreiðslu þannig að þar kæmi fram vilji þjóðarinnar til þess embættis.

Ég sé ekki nein rök fyrir því að forsetinn sé til staðar í stjórnarskránni. Það hefur verið nefnt hérna að þau hlutverk sem hann hefur samkvæmt henni eru í rauninni markleysa. Hann passar heldur ekki inn í mynd okkar af þrískiptingu valdsins sem heimspekingar hafa sett upp til þess að vernda borgarann fyrir ofurvaldi ríkisvaldsins, þ.e. að það sé ekki sami aðilinn sem setji lög, framkvæmi þau og dæmi eftir þeim, það sé mjög skýr skipting þar á. Við eigum að sjálfsögðu að vinna að þeirri skiptingu þó að það náist aldrei algjörlega.

Ég vil endurtaka, herra forseti, þakkir mínar til flm. fyrir að hafa flutt þetta frv. Þetta er mjög þörf umræða og að sjálfsögðu þarf Alþingi öðru hverju að ræða grundvallaratriði.