Textun

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 12:43:10 (4905)

2004-03-04 12:43:10# 130. lþ. 77.3 fundur 386. mál: #A textun# frv., Flm. SigurlS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[12:43]

Flm. (Sigurlín Margrét Sigurðardóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. sem ætlað er að tryggja að heyrnarskertir og heyrnarlausir njóti þeirra mannréttinda að geta notið frétta, upplýsinga, fræðslu, kynningar, auglýsinga og afþreyingarefnis til jafns við þá sem heyra. Einungis hluti þess efnis sem sent er út á sjónvarpsstöðvum eða aðgengilegt er á myndböndum og stafrænu formi er með íslenskum texta ef tungumálið er íslenska. Flestar erlendar kvikmyndir og erlent sjónvarpsefni er með íslenskum texta til að almenningur geti notið þess til fulls og þykir það sjálfsagt og eðlilegt. Heyrnarskertir og heyrnarlausir fá ekki notið þessa sjónvarpsefnis, kvikmynda eða myndbanda nema það sé textað.

Á Alþingi hafa textunarmál oft verið til umræðu. Á 126. löggjafarþingi var samþykkt þingsályktun nr. 33/2001, um textun íslensks sjónvarpsefnis. Hins vegar virðist samþykkt Alþingis litlu hafa skilað í reynd. Þann 23. apríl 2003 ákvað menntamálaráðherra að hækka verulega framlag til textunar á innlendu sjónvarpsefni í ríkissjónvarpinu. Forsætisráðuneyti, menntamálaráðuneyti, félagsmálaráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti lögðu saman 4,5 millj. kr. aukalega til ríkissjónvarpsins til að auka við textaða dagskrá sjónvarpsins. Til viðbótar við framlag ráðuneytanna var áætlun ríkissjónvarpsins 2,5 millj. kr. fyrir árið 2003. Framkvæmdastjóri sjónvarpsins hefur einnig lýst því yfir við Félagið Heyrnarhjálp að ríkissjónvarpið hafi að markmiði að auka fjármagn til textunar íslensks efnis árið 2004. Árangur er sem sagt nokkur. Textun á innlendu efni er nú í gangi hjá ríkissjónvarpinu á einstökum þáttum en efni líðandi stundar er ekki textað og er það mjög bagalegt.

[12:45]

Ríkissjónvarpið hafði textað um 2.000 mínútur í október/nóvember 2003 samkvæmt svari þáv. menntmrh. við skriflegri fyrirspurn minni í þingsölum haustið 2003 og var gert ráð fyrir að í árslok 2003 hefðu 3.400 mínútur verið textaðar. Kostnaður við þá textun var metinn á 1,7 millj. kr. Ríkissjónvarpið hafði ráðgert að texta um 5.000 mínútur á árinu 2003 en þær áætlanir gengu ekki upp og er tækjakosti einkum kennt um. Ráðherra segir í svari sínu að nauðsynlegt verði að endurnýja þann tækjakost sem notaður er til textunar og hefur Ríkisútvarpið upplýst að lögð verði áhersla á að leysa þau vandamál eins fljótt og unnt er. Er ekki eðlileg krafa allra þeirra sem vilja nýta sér texta að þeir peningar sem eyrnamerktir voru textun á íslensku efni árið 2003 og ekki voru nýttir verði notaðir til að bæta tækjakostinn til að textunin geti eflst og batnað?

Hver er svo tryggingin fyrir varanlegri þjónustu? Til hvers var aukafjárveitingin? Jú, til að gera átak í textunarmálum og tækjakosti. En við verðum að halda áfram. Og hvað kemur svo í ljós? Er þá ekki nein fjárveiting til þessa verkefnis sem fyrirhugað er á þessu ári? Þetta er því mjög ótryggt?

Samkvæmt upplýsingum frá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands er talið að um 25 þúsund Íslendingar séu meira og minna heyrnarskertir að einhverju leyti þannig að þeir nái ekki að heyra efni sjónvarpsins. Textun veitir fullkomið aðgengi að upplýsingum og eru það sjálfsögð mannréttindi og mikið jafnréttismál. Annars staðar á Norðurlöndum er textun innlends efnis sjálfsögð í rekstri sjónvarpsstöðvanna. Talið er að textun stuðli að bættri lestrargetu heyrnaskertra barna og unglinga og annarra sem eru í lestrarnámi eða eiga við lestrarörðugleika að stríða. Þá er textun mikilvægur stuðningur við fólk af erlendum uppruna sem er að læra málið. Það auðveldar því að skilja efnið geti það fylgst með skjátextanum jafnframt því að hlusta og sjá atburði.

Hjá BBC, ríkissjónvarpinu í Bretlandi, störfuðu sex starfsmenn við textun í byrjun en þeir voru 90 árið 2002. BBC hefur verið leiðandi í textun í Evrópu á síðustu missirum og voru 78% af öllu efni breska ríkissjónvarpsins textuð á síðasta ári, þar á meðal íþróttafréttir, fréttir, þingmál og bíómyndir og er ekki gerður neinn greinarmunur á hvort um beina útsendingu er að ræða eða ekki. Frá árinu 1996 hefur textun á innlendu sjónvarpsefni aukist stöðugt. Þess má einnig geta að í Bretlandi voru samþykkt lög þess efnis að 50% innlends efnis yrðu textuð og var gefinn átta ára aðlögunartími til að ná markmiðinu sem á að nást árið 2004. Ekkert vandamál er að senda texta út í beinni útsendingu þar og eru t.d. allar beinar útsendingar frá breska þinghúsinu textaðar en nú er verið að vinna að nýrri tækni sem breytir tali í texta.

Íslendingar hafa sýnt að þeir gleypa við allri nýrri tækni. Því ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að þeir gerðu það í þessu máli og stór hópur gæti notið góðs af.

Virðulegi forseti. Rétt er að benda á að heyrnarskertum fer fjölgandi. Komið hefur fram á Norðurlöndunum að þar er sífellt verið að greina yngra fólk með svokallaðar elliheyrnardeyfur. Heyrnarfrávik sem áður var algengt að finna hjá fólki um fimmtugt finnast æ oftar hjá fólki um þrítugt. Ástæðan fyrir því er álitin vera sú að nú verða börn og unglingar fyrir stöðugt meira hávaðaáreiti sem gerir það að verkum að heyrnin skerðist fyrr á ævinni en áður. Ekki er til nein rannsókn sem hægt er að styðjast við þar sem ekki fór að bera á þessu fyrr en mjög nýlega. Af þessu má draga þá augljósu ályktun að sá hópur sem ekki heyrir í sjónvarpi fer stækkandi í framtíðinni og aldursdreifingin verður mun meiri. Textun er lausnarorðið fyrir aðgengi þessa hóps. Því er það mikið réttlætismál að texta innlent efni í sjónvarpi.

BBC hefur mikla reynslu af því að senda út texta í beinni útsendingu. Það gera þeir með hraðritun með svokölluðu hljóðritunarlyklaborði. Samkvæmt upplýsingum frá yfirmanni textunardeildar BBC í Bretlandi, Martin Davies, er nú unnið að nýrri tækni sem breytir tali í texta og byrjað er að prufukeyra þá tækni í beinum útsendingum af íþróttakappleikjum og þingfundum.

Í Bandaríkjunum hefur allri textun fleygt fram vegna svokallaðra ADA-laga, Americans with Disabilities Act, um aðgengi. Nú má sjá textun á nærri öllum sjónvarpsstöðum þar, bæði stórum og smáum. Ef sjónvarpsstöð þar í landi býður upp á textun er allt efnið textað, þar á meðal kappleikir í beinni útsendingu og jafnvel auglýsingar. ADA-lögin um aðgengi tóku gildi 1985 og hafa verið endurskoðuð. Þau fjalla um aðgengi hvers konar, allt frá upplýsingum til aðgengis að opinberum stofnunum. Við endurskoðun hafa þau tekið stakkaskiptum og ná núna einnig til einkafyrirtækja. Gefinn hefur verið aðlögunartími til að koma á aðgengi án hnökra og sé því ekki sinnt er beitt sektum. Aðlögunartímabil þessarar greinar í ADA-lögunum rennur út á þessu ári, 2004.

Textun í Evrópu er orðin það mikil að jafnvel fyrrum austantjaldslönd eru farin að texta og finnst það sjálfsagt. Í austurrískri könnun sem landssamtök heyrnarlausra í Austurríki gerðu í 16 Evrópulöndum og var gefin út 18. maí 2003 kemur eftirfarandi fram um fjölda tíma í textun á mánuði. Þetta á við ríkissjónvarpsstöðvar: Í Albaníu var engin textun, aðeins textað fyrir erlend mál. Austurríki, textun upp á 170 tíma. Belgía, fimm tímar. Danmörk, 189 tímar. England, 80% af öllu efni á BBC og ITV og Rás 4 og 20% í stafrænum útsendingum. Finnland, 15% af öllu innlendu efni. Grikkland, 14 tímar. Írland, 23 tímar. Ísland einn tími. Ítalía 80 tímar. Pólland 30 tímar. Spánn, 446 tímar. Sviss, 240 tímar. Þýskaland, 387 tímar.

Eins og þessi upptalning gefur til kynna er sorglega lítil textun hér á landi miðað við önnur lönd. Þó ástandið hafi batnað örlítið frá því að þessi könnun var gerð þá hefur ríkissjónvarpið fjárveitingu fyrir mun meiri textun en framkvæmd er í dag.

Textun þarf að setja í lög og gera jafnar kröfur til allra stöðva um að texta innlent sjónvarpsefni og veita þeim stuðning til að koma textun á innlendu efni í framkvæmd. Með tímanum mun textun festast í sessi og verða sjálfsagður hluti rekstrar stöðvanna sjálfra.

Þetta stóra verkefni verður þó ekki unnið án nokkurs kostnaðar. Því meira sem sjónvarpsstöðvar texta því hagstæðari samningar fást og hlutfallslegur kostnaður lækkar verulega Reynsla BBC hefur sýnt að eftir að farið var að texta sjónvarpsefni fundu aðrar sjónvarpsstöðvar einnig þörf hjá sér að texta. Textun var því boðin út og samkeppni um verkefnin jókst smám saman þannig að nú er kostnaðurinn minni. Því er ekki hægt að tala um dýra fjárfestingu.

Það ætti að vera metnaðarmál íslenskra stjórnvalda og sjónvarpsstöðva að mæta þörfum fólks fyrir textun. Hópurinn er mun stærri en þeir sem nýta sér ýmsar útsendingar á séráhugasviðum, þar með taldar ýmsar tónlistarútsendingar og íþróttaútsendingar, jafnvel í fótbolta.

Það hefur verið sparað á aðgerðaleysinu einu í textunarmálum undanfarin missiri. Á sama tíma hafa verið veittir alls konar styrkir og fjárframlög til tónlistar en þeir sem ekki heyra hafa lítið sem ekkert fengið til að uppfylla sínar þarfir til textunar eða túlkunar. Við þetta misrétti er ekki hægt að búa. Alþingi Íslendinga getur ekki viðhaldið þessu misrétti með því að fresta framgangi málsins enn einu sinni.

Virðulegi forseti. Þetta eru rök mín í flutningi frv. til laga um textun á innlendu efni. Ég hef lokið máli mínu og óska eftir að frv. verði vísað til menntmn. Alþingis.