Textun

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 13:28:18 (4911)

2004-03-04 13:28:18# 130. lþ. 77.3 fundur 386. mál: #A textun# frv., Flm. SigurlS
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[13:28]

Flm. (Sigurlín Margrét Sigurðardóttir):

Virðulegi forseti. Ég hef fylgst með því sem fram hefur komið í dag. Fram hafa komið mjög góð sjónarmið og gott að margir tóku til máls og styðja frv. Það hefur alltaf verið góður stuðningur við málið þegar við höfum talað um textun en lítið verið um aðgerðir. Ég vona að nú komist málið í framkvæmd þannig að þetta verði sett í lög og allir græði á frv.

Ég ætla að bæta einu við það sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson kom að í máli sínu um prósentutölur, að 8% Íslendinga væru í þessum hópi, 25 þúsund manns. Þessi prósentutala er þriggja ára gömul. Íslendingum hefur fjölgað. Við erum 290 þúsund manns á landinu í dag. Það má reikna með að um 29 þúsund manns búi í dag við heyrnarskerðingu. Hópurinn er í kringum 9%. Sá hópur stækkar jafnframt því sem okkur Íslendingum fjölgar. Yfirleitt er miðað við að um 10% þjóðarinnar séu heyrnarskert.

Einnig ber að hafa í huga að fólk af erlendu bergi brotið flyst til Íslands. Sá hópur er um það bil 10 þúsund manns sem mundi njóta þess að fá textun á íslensku efni. Þetta á því alls við um 40 þúsund manns. Þetta lagafrv. nær því til mjög stórs hóps og varðandi það fjármagn sem þarf að leggja fram þarf að skoða hvað samfélagið fær í staðinn, ávinning Íslendinga af frv.

Ég vil aftur þakka öllum sem styðja frv. og ég vona að það nái fram að ganga á þessu þingi.