Íslensk farskip

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 13:59:14 (4914)

2004-03-04 13:59:14# 130. lþ. 77.4 fundur 484. mál: #A íslensk farskip# (skattareglur o.fl.) þál., GHall
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[13:59]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Hér er athyglisverðri þáltill. hreyft varðandi íslenska kaupskipastólinn og er það vel. Fyrir nokkrum dögum sáum við að síðasta skipi undir íslenskum fána var flaggað út undir fána Færeyinga sem á að bjóða svokallaða ,,alþjóðaskráningu``. Rökin voru þau að eðlilegt væri að olíufélögin, sem reka skip sem Keilir heitir, í ljósi þeirrar samkeppni sem nú ríkti í flutningabransanum, ef svo má segja, væri eðlilegt að leita annarra leiða varðandi rekstur og þann útgerðarhátt sem verið hefur um áratuga skeið hvað áhrærir rekstur olíuskips í strandsiglingum.

[14:00]

Það er líka dálítið merkilegt þegar litið er til þess að hér á landi er til svokallaður olíujöfnunarsjóður sem greiðir sérstakt gjald með hverju fluttu tonni og þarf ekki að fara mörg ár aftur í tímann til að minnast þess að á Seyðisfirði var settur upp stór og mikill tankur sem átti að vera til jöfnunar eða þæginda fyrir olíufélögin til að dreifa olíu á norðausturhornið. En viti menn. Það kom aldrei nema einn farmur í þennan tank vegna þess að það var mikið óhagræði tekjulega séð fyrir olíufélögin að nota þetta hagræði. Þau höfðu meira upp úr því að flytja olíuna frá Reykjavík hringinn í kringum landið en að nota miðlægan flutningsmáta, þ.e. birgðageymslu á norðausturhorninu því þá kom minna í flutningsjöfnunarsjóð.

Nú hlýtur að vera þröngt í búi hjá olíufélögunum fyrst svo er komið að þeir telja nauðsynlegt að flytja eina skipið sem var undir íslenskum fána undir alþjóðaskráningu í Færeyjum, undir færeyskan fána og ætla sér að manna skipið erlendum aðilum.

Ég hef minnst á það áður að ekki er langt síðan skip í eigu íslenskrar útgerðar sem var mannað rússneskum sjómönnum rak á land á Grundartanga. Það var mesta mildi að skipið lenti á milli tveggja skerja og líklega á eina staðnum í fjörunni þar sem var sandur. Þetta var í blíðskaparveðri.

Ég gef ekki mikið fyrir það og ég tel að við séum illa á vegi stödd ef svo fer að olíudreifing á sjó í kringum landið verði með þeim hætti að erlendir aðilar sjái um hana, þ.e. erlend áhöfn á íslensku skipi, svo viðkvæm sem við erum fyrir því að slys hendi við strendur landsins, mikið mengunarslys, og þá er mikil vá fyrir dyrum.

Þegar talað er um skip undir erlendum fána er rétt að minna aðeins á það að nú er mjög algengt að skipafélögin taki skip á svokallaðri þurrleigu, þ.e. þau leigja skipin án áhafnar en manna þau með Íslendingum. Svo hefur háttað til a.m.k. með Eimskip og nokkur skip Samskipa líka sem hafa verið tekin á þurrleigu að þau hafa verið mönnuð Íslendingum. Í sjálfu sér breytir það ekki miklu undir hvaða fána skipið siglir þó að ég telji að það sé auðvitað nauðsynlegt og eðlilegt og sjálfsagt að við sem eyþjóð flöggum sem flestum skipum undir íslenskum fána. Í þeim margbreytilega farmflutningi eins og er til þessarar eyþjóðar í Norður-Atlantshafi getur stundum verið þægilegt fyrir kaupskipaútgerðir að geta víxlað á skipum, þ.e. stærð skipa, miðað við þann flutning og flutningsþörf sem er. Það getur í sjálfu sér verið eðlilegt. Það sem hins vegar er mjög alvarlegt í þessu máli er að allt mjöl og allt lýsi er flutt frá landinu af erlendum aðilum. Það er hinn stóri sannleikur í málinu.

Það er líka mjög athyglisvert að líta aftur í tímann og horfa til þess þegar Íslendingar gerðu kröfur um það að fá sjóflutningana fyrir varnarliðið á Íslandi. Rökin voru þau að um væri að ræða eyþjóð í Norður-Atlantshafi sem byggi við þann kost að efla yrði íslenskan kaupskipastól, efla yrði íslenska kaupskipaflotann. Það var gert. Gerður var samningur á ný við Bandaríkjaher og skipt þannig að ávallt yrði leitað útboða, þeir sem byðu lægst fengju 60% flutninganna en þeir sem væru næstlægstir fengju 40%. Var þá ákveðið að skipta þessu á milli þjóðanna, milli Bandaríkjamanna og Íslendinga. En það sem var athyglisvert í bandaríska samningnum var að þar stóð að allir flutningar sem færu fram af hálfu Bandaríkjamanna skyldu vera framkvæmdir af bandarísku skipi með bandarískri áhöfn og undir bandarískum fána. Í íslenska samningnum var hins vegar ekkert getið um annað en að það skyldi bara vera íslensk kaupskipaútgerð. Síðan gerist það að þessi samningur er endurnýjaður og fyrir líklega 3--4 árum var hann lagður fyrir Alþingi. Ég flutti þá breytingartillögu við þau lög að sama ákvæði skyldi gilda í íslenska samningnum og þeim bandaríska, að það skyldi vera íslenskt skip mannað íslenskri áhöfn og undir íslenskum fána sem sæi um sjóflutningana fyrir Íslendinga. Það var alveg með ólíkindum hve þingheimur brást illa við þessari tillögu minni, sem var kolfelld. Hvað gerðist í framhaldi af því? Stofnað var skipafélag sem var í tengslum við bandaríska og íslenska aðila og heitir í dag Atlantsskip. Og þá bregður svo við að 60%-flutningarnir sem fara á hendur þessa skipafélags eru fluttir með erlendu skipi með rússneskri áhöfn. Hvar voru þá rök stjórnvalda fyrir því að ná í flutninga frá Bandaríkjaher að sem eyþjóð í Norður-Atlantshafi yrðum við að byggja upp öflugan og traustan kaupskipaflota? Þau fuku út í veður og vind.

En aðeins út af því sem hér hefur komið fram í sambandi við skattalega meðferð og að rétt sé að umbuna íslenskum útgerðum skattalega eins og gert er annars staðar á Norðurlöndunum, þá hlýt ég að spyrja flutningsmenn: Hver er hinn eiginlega samkeppni íslenskra kaupskipaútgerða við erlenda aðila? Hver er samkeppnin? Annars staðar frá Norðurlöndunum sigla skipin út um allan heim í harðri samkeppni við Kína, Japan, Filippseyjar og skip undir Panamafána. En hér á Íslandi eru aðeins tvær kaupskipaútgerðir sem eru í samkeppni hvor við aðra. Það eru ekki erlendir aðilar sem eru að slást við þessar útgerðir.

Meina menn í alvöru að það sé eðlilegt og rétt að skatttekjum sé varið til þess að greiða niður flutning vegna samkeppni tveggja íslenskra kaupskipaútgerða? Það væri gott að heyra frá 1. flm. þáltill. hvað hann er að hugsa í því sambandi.