Íslensk farskip

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 14:16:12 (4916)

2004-03-04 14:16:12# 130. lþ. 77.4 fundur 484. mál: #A íslensk farskip# (skattareglur o.fl.) þál., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[14:16]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Menn mega ekki skilja orð mín svo að ég sé á móti þeirri athugun sem lögð er til í þessari þáltill. Ég styð hana.

Ég vildi aðeins koma inn á annað vegna ræðu hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar. Það eru ekki mörg ár síðan stimpilgjöld voru afnumin af kaupskipum vegna óska útgerðarmanna þar um. Þeir höfðu þá á orði og uppi rök um að yrði það gert mundi skipum fjölga undir íslenska fánanum. Það er búið að afnema stimpilgjöldin og það er enn á hinn veginn, að skipum undir íslenskum fána fækkar og ekkert kaupskip er orðið eftir í dag undir íslenskum fána.

Ég hlýt að spyrja hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson eins. Þegar hann talar um þessa skattalegu meðferð launa eða nettólaunagreiðslur til aðila í skandinavíska kaupskipaflotanum, og þá sænska eins og hann nefndi hér, eru þau skip flestöll í samkeppni erlendis. Eins og ég kom að í ræðu minni áðan eru þessar tvær íslensku kaupskipaútgerðir í samkeppni hvor við aðra og markaðslögmál þeirra er kaupgeta á Íslandi. Það er alveg ljóst að ef við gætum flaggað inn íslenskum kaupskipaflota að fullu og öllu, sem var, værum við að tala um eitt stykki álver. Það er eðlilegt að það sé skoðað líka. Við veitum álveri afslátt í lægra rafmagnsverði og af hverju eigum við þá ekki að skoða það með kaupskipaflotann?

Við ákváðum í samgn. fyrir allnokkru að kalla til útgerðarmenn kaupskipa og fá svör við spurningunni um hvers vegna þeir eru ekki með skipin undir íslenskum fána.

Svo hlýt ég að spyrja hv. þm. þegar hann talar um samkeppni, nýjasta dæmið þar sem Keili er flaggað út undir færeyskum fána: Í hvaða samkeppni var það skip? Í hvaða samkeppni var strandferðaskip olíuflutninga hér við land? Ekki í nokkurri samkeppni. Samt skulu settir erlendir sjómenn um borð, láglaunamenn.