Íslensk farskip

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 14:31:32 (4920)

2004-03-04 14:31:32# 130. lþ. 77.4 fundur 484. mál: #A íslensk farskip# (skattareglur o.fl.) þál., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[14:31]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það vill svo til og þarf svo sem engum að koma á óvart að við hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson deilum áhyggjum um ýmislegt er snýr að siglingum og stöðu þeirra hér á landi. Það er leitt til þess að vita að þau rök skuli hafa, eins og hann vék réttilega að, snúist í höndum okkar, að okkur væri nauðsyn að eiga öfluga útgerð sem sigldi að og frá landinu og væri undir íslenskum fána og íslenskri stjórn. Það er ábyggilegt að margir þeir sem stóðu á hafnarbakkanum og fögnuðu óskabarni þjóðarinnar við stofnun þess, mundu velta sér nokkuð yfir þeirri þróun sem orðið hefur hér á landi síðustu árin og áratugina.

Hv. þm. minntist á tryggingafélögin, að þau skyldu ekkert líta til þess öryggis sem fylgir því að hafa íslenska áhöfn í siglingum að og frá landinu og ég tala nú ekki um við ströndina, sérstaklega þegar verið er að flytja hættulegan farm eins og olíu. Ég átta mig alls ekki á því, virðulegi forseti, hvernig tryggingafélögin fallast á að taka þá áhættu að tryggja olíuskip í flutningum um ströndina með erlendri áhöfn án þess að gera kröfu um miklu hærri tryggingagjöld.

Það er kannski eins og með húsið í Bolungarvík sem var alltaf tryggt fyrir 30 millj. kr. og borgað afgjald af, en þegar átti að fara að greiða bæturnar voru þær aðeins 4--5 millj. kr. Það er margt að athuga þegar kemur að tryggingafélögum og það er líka margt að athuga þegar kemur að rekstri olíufélaganna eins og hann hefur verið á undanförnum árum.