Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 14:50:49 (4926)

2004-03-04 14:50:49# 130. lþ. 77.5 fundur 520. mál: #A almenn hegningarlög# (kynferðisbrot gegn börnum) frv., BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[14:50]

Björgvin G. Sigurðsson:

Frú forseti. Málið sem hér er til umræðu felur í sér mikla réttarbót í meðferð þeirra hryllilegu glæpa sem hér er um að ræða, þ.e. kynferðisbrota á börnum. Það miðar að því að slík mál fari réttlátari leiðir. Sú sérstaða sem býr að baki er augljós og æpandi ef maður skoðar málið og þá vönduðu greinargerð sem hv. 1. flm., Ágúst Ólafur Ágústsson, rakti hér prýðilega í framsögu sinni.

Það sem hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson og við aðrir flutningsmenn þessa frv. leggjum til er að sök fyrnist ekki í kynferðisbrotum gagnvart börnum undir 14 ára aldri. Sérstaðan kallar á slíka breytingu enda er aðstöðumunur geranda og þolanda augljós. Þolandinn, barnið, áttar sig oft einfaldlega ekki á því hvað um er að vera eða bælir niður það sem átt hefur sér stað og hvaða hryllilega framferði hefur verið í gangi enda oft um mjög flókin og náin tengsl þolenda og gerenda, fjölskyldutengsl ýmiss konar, að ræða. Við höfum séð það í skýrslum og frásögnum af slíkum glæpum að oft er um að ræða einstaklinga, menn sem tengjast barninu mjög sterkt. Það gerir það að verkum að barnið bælir innra með sér það ægilega framferði sem átt hefur sér stað og leiðist oft út í miklar hrakningar í lífinu og lendir í miklum erfiðleikum vegna þessara mála. Brotaþoli er oft ekki í aðstöðu, tilfinningalegri eða félagslegri, til að gera þessi mál upp, hvort heldur er við sjálfan sig, við gerandann, við fjölskyldu sína eða samfélagið allt, fyrr en komið er á fullorðinsár. Þegar fólk hefur náð að fóta sig í tilverunni og náð áttum þá á það fyrst möguleika á að gera þessi mál upp. Þá brýst þetta upp á yfirborðið og menn reyna að ná tökum á þessari ægilegu, ömurlegu og einstæðu lífsreynslu sem skilur engan eftir öðruvísi en helsáran. Fólk þarf mikinn tíma til að vinna úr slíkri reynslu. Þess vegna er augljóst að fyrning á hér alls ekki við.

Eins og hv. þm. Ágúst Ólafur kom inn á eru mörg sanngirnisrök á bak við fyrningu glæpa ýmiss konar en tölurnar tala sínu máli. Í greinargerð með frv. segir, með leyfi forseta:

,,Um 43,5% þeirra sem leituðu til Stígamóta höfðu orðið fyrir kynferðisbroti á aldrinum 5--10 ára en hins vegar voru 44,7% þeirra sem leituðu til Stígamóta á aldrinum 19--29 ára og 31,8% á aldrinum 30--49 ára. Oft koma þessi brot því ekki fram í dagsljósið fyrr en mörgum árum eftir að þau voru framin og jafnvel ekki fyrr en brotaþolarnir hafa náð fullorðinsaldri. Þetta á ekki síst við þegar brotamaður er í fjölskyldutengslum við brotaþola`` --- eins og ég gat um áðan, virðulegi forseti.

,,Ljóst er því að núgildandi fyrningarfrestir geta í mörgum tilfellum verið of skammir fyrir stóran hóp brotaþola. Dómar þar sem menn hafa verið sýknaðir fyrir kynferðisbrot gegn börnum, jafnvel þótt sekt hafi verið sönnuð, staðfesta þetta.`` --- Þetta kom einnig fram í framsögu 1. flm. Slíkir dómar undirstrika alvarleika málsins.

Málið er grafalvarlegt, virðulegi forseti, og verður ekki haft í pólitískum flimtingum neins konar. Það er því flutt af hógværð og festu. Þetta er eitt þeirra mála á þinginu í vetur sem einna mikilvægast er að nái fram að ganga og óskum við flutningsmenn eftir því að þingmenn annarra flokka, hvort heldur úr stjórn eða stjórnarandstöðu, leggi þessu góða máli lið, tryggi að frv. nái fram að ganga, komi til atkvæða fyrir vorið og verði að lögum.

Ég tel brýnt að færa þessi brot í hóp annarra mála sem sérstakir fyrningarfrestir gilda um. Dæmi um slík mál eru þau sem ævilangt fangelsi liggur við, eins og kemur fram í grg., t.d. landráð, hvers kyns brot gegn stjórnskipan og æðstu ráðamönnum þjóðarinnar, manndráp og mannrán. Þetta eru brot sem ævilangt fangelsi liggur við á Íslandi og flokkur mála sem aldrei fyrnast.

Vegna sérstöðu og hrikaleika kynferðisafbrota gegn börnum tel ég að misnotkun barna sé jafnvel enn þá viðbjóðslegri en þeir glæpir sem ég taldi upp áðan og enn þá skaðlegri, bæði fyrir einstaklinginn og samfélagið en beinlínis manndráp og mannrán. Þar á engan greinarmun að gera á og ég tel að svipuð refsiþyngd eigi að liggja við kynferðisafbrotum gegn börnum og þeim málum sem ég taldi upp áðan. Því ætti fyrningarfrestur ekki að ná yfir slík brot. Sérstaða afbrotanna er slík að ekki hægt að líta þau öðrum augum en þeim að svo alvarleg afbrot hafi verið framin gagnvart einstaklingnum að yfir þau nái ekki aðrar refsingar en þær þyngstu og að brot af þessu tagi geti því ekki fyrnst.

Það gefur augaleið, eins og fram kemur í tölunum frá Stígamótum, að stór hluti málanna fer aldrei til rannsóknar og meðferðar dómstóla fyrr en brotaþoli er orðinn fullorðinn einstaklingur og hefur, eins og ég gat um áðan, gert þessi mál upp við sjálfan sig, fjölskyldu sína og samfélagið. Viðkomandi kann þá fyrst að hafa þroska og áræði til að takast á við það ólýsanlega erfiða hlutskipti að leiða slík mál fram í dagsljósið, oft brot af hálfu fjölskyldumeðlims eða einhvers sem tengst hefur viðkomandi sterkum tilfinningaböndum. Vafalaust ná engin lýsingarorð yfir það að þurfa að leiða slík mál fram í dagsljósið. Það hefur í för með sér ringulreið og upplausn fjölskyldna. Það sem lagt er á þolendur slíkra glæpa er held ég með engum orðum hægt að lýsa.

Hinu háa Alþingi ber því að viðurkenna sérstöðu þessara glæpa og andstyggilegu afbrota með því að breyta hegningarlögunum eins og lagt er til í frv., eins og hér stendur:

,,Við 81. gr. laganna bætist ný málsgrein, 2. mgr., svohljóðandi:

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. fyrnist sök vegna brota samkvæmt ákvæðum 194.--202. gr. ekki þegar brot er framið gagnvart barni undir 14 ára aldri.``

Þetta er kjarni málsins. Þetta er það sem við flutningsmenn frv. leggjum til. Við teljum fyrir því öll rök og allar ástæður að þetta mál nái fram að ganga. Við sjáum engin haldbær rök fyrir öðru en því að þessir glæpir, þessi afbrot og níðingsverk gagnvart einstaklingunum, njóti annarrar meðferðar en hér er lögð til, flokkist eins og þeir glæpir sem ég gat um áðan og fyrning nær alls ekki yfir. Það er kjarni málsins, virðulegi forseti.

Við skorum á hið háa Alþingi, á aðra alþingismenn, að leggja upp í þessa för með okkur, tryggja að þessi lög nái fram að ganga og þessi réttarbót verði gerð á dómskerfi okkar þannig að þeir einstaklingar sem gerst hafa sekir um slík voðaverk gagnvart börnum geti undir engum kringumstæðum komist undan því, liggi sök fyrir.